Uppsögn sérkjarasamninga hjúkrunarfræðinga

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 15:35:06 (95)


[15:35]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þau svör sem ég fékk áðan og þó kannski sérstaklega það að hæstv. ráðherra sagði að sérkjarasamningi ætti að beina inn í aðalkjarasamning sem líklega verður þá gert um næstu áramót. Þar er tækifæri til þess. Ég hefði talið rétt að þessi mál hefðu verið stoppuð strax og öllum frekari ákvörðunum frestað og málið afgreitt á fjáraukalögum en ekki með einhverjum loforðum ráðuneytis um einhverjar tilteknar fjárhæðir sem alls ekki fullnægja þörfinni sem fyrir hendi er eftir þeim upplýsingum sem ég hef frá forráðamönnum sjúkrahúsa.
    Ég vil síðan mótmæla því að forstöðumenn sjúkrahúsanna hafi farið með þessi mál alla tíð. Það er ekki rétt. Sérkjarasamningarnir voru flestir til fyrir 1. janúar 1991, þegar ný verkaskiptalög voru samþykkt. Við verkaskiptalögin yfirtók ríkið þetta. Það eru til bréf frá fjmrn. dags. 21. janúar, það fyrsta sent árið 1991. Ef þetta er túlkun hæstv. ráðherra og ráðuneytis hvers vegna var þá verið að senda út bréf 2. júní í október, boða fund í febrúar og skipa forstöðumönnum sjúkrahúsanna að segja þessum sérkjarasamningum upp? Mér er sama hvort menn kalla þetta einstaklingsbundna samninga eða sérkjarasamninga. Skipanirnar komu frá fjmrn. studdar af heilbrrn. vegna þess að verkaskiptalögin tóku gildi 1991. Ábyrgðin er þessara ráðuneyta en ekki stjórnenda sjúkrahúsanna og hefur ekki verið það síðan 1991. Það er rétt, ég þekki fjárhagsstöðu þessara sjúkrahúsa mjög vel. Það er ástæðan fyrir því að ég tek þetta upp hérna í dag af því að ég þekki fjárhagsstöðu sjúkrahúsanna afar vel og veit hvað loðin svör ráðuneyta þýða.