Stjórnarskipunarlög

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 16:28:41 (100)


[16:28]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Á fundi Alþingis að Lögbergi, hinum forna þingstað Alþingis frá 930--1798, á fundi sem haldinn var 17. júní 1994 fór fram lokaatkvæðagreiðsla um till. til þál. um endurskoðun VII. kafla stjórnarskrárinnar. Þingflokksformenn höfðu þá þegar fjallað um málið og samkomulag náðst um hvernig að endurskoðun á þessum kafla sem nefndur er mannréttindakaflinn yrði staðið.
    Virðulegi forseti. Því nefni ég þessa þekktu staðreynd að mér fannst það áhrifaríkt að við gerðum þessa samþykkt á Þingvöllum.
    Eins og fram hefur komið erum við með frv. þessu um stjórnskipunarlög að staðfesta lagasetningu sem fullt samkomulag var um á síðasta þingi nýliðins kjörtímabils. Það er einnig afar mikilvægt að samstaða náist um breytingar á stjórnarskrá, að sátt sé um hvernig mannréttindakaflinn er endurskoðaður enda var það haft að leiðarljósi í allri umfjöllun frá fyrstu stigum málsins og það á sinn þátt í að allir þingflokkar féllust á sameiginlega niðurstöðu þeirrar nefndar sem vann endurskoðunina.
    Það voru ekki teknar inn allar breytingar sem áhersla var lögð á, ýmist af þingflokkum eða öðrum aðilum sem sóttu á um tilteknar breytingar við þessa endurskoðun. Sjálf hefði ég kosið að samstaða hefði náðst um að festa rétt fatlaðra í stjórnarskrána. Það hefur verið gert í sumum nágrannalöndum okkar sem hafa endurskoðað sína stjórnarskrá en ég veit að það var sótt á um ýmis atriði sem ólík sjónarmið voru uppi um hvort heima ættu í stjórnarskránni og að niðurstaðan varð að flytja einungis tillögur um breytingar sem full samstaða var um.
    Á síðustu árum hafa mannréttindamál fengið æ ríkari umfjöllun hjá okkur. Vitneskjan um mannréttindabrot og ofbeldi sem birtast okkur í nær viku hverri hafa gert okkur meðvituð um hve réttur manna í lýðræðisríkjum Vesturlanda er mikilvægur og í þeim efnum vísum við oft með stolti til ríkjandi viðhorfa hér á Norðurlöndum.
    Á síðasta ári var gefin út bók af hálfu Rauða krossins. Bókin ber nafnið ,,Mannréttindi`` og er skráð af Ágústi Þór Árnasyni. Ég ætla, með leyfi virðulegs forseta, að lesa úr upphafi inngangskafla þessarar bókar sem hljóðar svo:
    ,,Öll erum við menn. Menn eru menn hvort sem þeir eru rauðir, gulir, svartir eða hvítir. Konur og karlar eru menn og börn eru það líka. En hæfileikum, efnum og aðstæðum er ærið misskipt. Menntun og tækifæri til að rækta það sem í okkur býr opnar okkur leiðir sem öðrum eru lokaðar sökum fáfræði og fátæktar. Auðlegð, hæfileikar og aðstæður geta veitt mönnum forréttindi umfram aðra. Sum réttindi eiga þó að vera óháð öllu öðru en því að við erum menn. Við eigum öll rétt á að lifa, ekki má loka okkur inni eða hindra ferðafrelsi okkar að ástæðulausu. Allir mega tjá skoðanir sínar og ekki er hægt að banna fólki að vinna eða læra það sem það vill og getur. Ekkert okkar á að þurfa að búa við hungur eða húsnæðisleysi.
    Mannréttindi eru óháð stétt, stöðu, fjölskyldu, atvinnu, trú og menningu fólks. Mannréttindi fylgja öllum frá vöggu til grafar. Litarháttur, kynferði, þjóðerni, tunga eða stjórnmálaskoðun fólks breytir þar engu um. Tilvist manneskju veitir henni rétt til að njóta mannréttinda til jafns við alla aðra. Þeim rétti má ekki svipta fólk og það getur ekki afsalað sér grundvallarréttindum. Mannréttindi eiga að koma í veg fyrir að yfirvöld ráðskist með fólk að geðþótta og skapi því óbærileg lífskjör.``
    Virðulegi forseti. Því flyt ég inngang þennan hér á hinu háa Alþingi að ég tel að breytingar á stjórnarskránni, mannréttindakaflanum, spanni það sem hér er sett fram og sem mér finnst afar mikilvægt og samandregið í raun og veru það sem við hugsum þegar við fjöllum um mannréttindi. En ég ætla að leyfa mér í örfáum orðum að víkja að frv. því sem hér er til umfjöllunar og sem ég hef lýst yfir að mér finnst vel hafa tekist til um.
    Ég ætla að byrja á því varðandi 1. og 2. gr., án þess að fara ofan í þessar greinar, að fagna því

sem þarna felst í breyttu orðalagi að þar er nokkuð rýmkað um ákvæðin og frelsið til að iðka aðra trú er fest í stjórnarskrá okkar.
    Ég vil einnig koma örlítið inn á 3. gr. þar sem fjallað er um að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna o.s.frv. og þessarar setningar: ,,Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.`` Það er afar mikilvægt, og ég tek undir það, að þetta ákvæði sé fest í stjórnarskrá.
    Jafnrétti kvenna og karla er mannréttindamál og það er mál sem brennur mjög sterkt á konum. Mig langar að nefna það varðandi þetta ákvæði hér að viðurkenndur launamismunur og viðbrögð við þeirri staðreynd verður til umræðu á þessu þingi og ég tel að umræður um aðgerðir varðandi þessi mál verði mjög öflugar á næstu mánuðum í okkar þjóðfélagi og hér á hinu háa Alþingi.
    Ég hef ekki hugsað mér að fara orðum um hverja grein heldur fyrst og fremst nefna hér nokkur atriði. Mér finnst að frelsið sé grundvallaratriði í lýðræðisríki eins og okkar og mikilvægt að festa ákvæði er varða frelsissviptingu í stjórnarskrá landsins og það er gert í 5. gr.
    Einnig er það nýtt og sjálfsögð mannréttindi, sterkt að hafa í stjórnarskrá, að engan megi beita pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og að nauðungarvinnu skuli engum gert að leysa af hendi.
    Ég tel einnig að það að ekki megi mæla fyrir í lögum um dauðarefsingu endurspegli íslenskt viðhorf og réttarvitund. Ég tel að það sé grundvallarviðhorf Íslendinga að hér megi aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu og ég fagna þessu ákvæði.
    Ég tek undir þau varnaðarorð sem er að finna í umfjöllun um 9. gr. þar sem bætt er inn að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs og bætt við: heimilis og fjölskyldu, að þessi viðbót verði aldrei skjól ofbeldis eða misnotkunar, enda er reynt að girða fyrir slíkt með því ákvæði sem felst í síðustu málsgrein.
    Mig langar varðandi 13. og 14. gr. að nefna það að við höfum sett margs konar lög um atvinnumál, um aðbúnað fatlaðra, sjúkra, aldraðra, barna o.s.frv. en það eru aðeins örfá ár, fjögur eða fimm, síðan sett voru lög um félagslega þjónustu sveitarfélaga sem þá leystu af hólmi úrelta framfærslulöggjöf. Ég fagna því þegar ég lít á orðalag 70. og 71. gr. stjórnarskrárinnar þar sem fjallað er um að sá eigi rétt á styrk úr almennum sjóði sem eigi fær séð fyrir sér og sínum og einnig að skylt sé að sjá þeim fyrir uppfræðingu og framfæri af almannafé sem eigi hafa efni á að fræða sjálf börn sín, séu börnin munaðarlaus og öreigar, að búið er að færa þetta í nýtt horf og að 76. gr. verður svohljóðandi:
    ,,Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.``
    Virðulegi forseti. Eins og ég sagði hef ég ekki hugsað mér að fjalla um allar greinar frumvarpsins. Framsögumaður hefur gert það. Um þetta mál er góð sátt, en endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur lengi staðið til og oft verið haft í flimtingum á liðnum árum að þeirri endurskoðun yrði líklega aldrei hrint í framkvæmd, yrði aldrei lokið. Nú erum við að ljúka mikilvægum þætti þó ekki sé um að ræða endurskoðun stjórnarskrárinnar í heild. Þessi áfangi sem nú hefur náðst er Alþingi til sóma og ég er sannfærð um það að þessi lög verða staðfest hér á vorþingi og er til vitnis um hve hægt er að ná góðri samstöðu þvert á alla þingflokka þegar menn hafa sett sér ákveðin markmið eins og Alþingi gerði á 17. júní á sl. ári.