Stjórnarskipunarlög

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 17:01:23 (106)


[17:01]
     Flm. (Geir H. Haarde) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins með síðari breytingum á þskj. 2. Frv. er samhljóða samnefndu frv. sem samþykkt var á síðasta þingi og er nú, eins og þá, flutt af formönnum allra þingflokka. Mál þetta er ekki umfangsmikið að stærð, ólíkt því máli sem hér var til umræðu fyrir stundu, og felur aðeins í sér tvær efnislegar breytingar. Vík ég þá að fyrri breytingunni.
    1. gr. frv. stefnir að því að færa 43. gr. stjórnarskrárinnar um endurskoðun og eftirlit með framkvæmd fjárlaga til samræmis við þá grundvallarbreytingu sem gerð var á stjórnskipulegri stöðu Ríkisendurskoðunar á árinu 1986. Hin umboðslega endurskoðun Ríkisendurskoðunar hafði til þess tíma farið fram á vegum framkvæmdarvaldsins, í Stjórnarráðinu, í sérstakri stjórnardeild er laut fjmrh. Meðan svo var til háttað var því e.t.v. ekki nema eðlilegt að fjárstjórnarvaldið, Alþingi, ætti sér stjórnarskrárvarinn rétt til þess að kjósa sér sérstaka trúnaðarmenn, svokallaða yfirskoðunarmenn, til að hafa eftirlit með reikningsskilum ríkissjóðs eins og 43. gr. stjórnarskrárinnar kveður nú á um.
    Frá upphafi árs 1987 var hin umboðslega endurskoðun stjórnvalda hins vegar lögð niður og starfsemi hennar flutt í sérstaka stofnun sem starfar í beinum tengslum við Alþingi undir yfirstjórn þess og á ábyrgð þess. Af þessum sökum þykir eðlilegt að lagt sé til að 43. gr. kveði framvegis á um að þessi þáttur fjárstjórnarvaldsins sé í höndum Alþingis og áréttað að löggjafinn geti ákveðið með lögum hvernig því verður háttað á hverjum tíma.
    Rétt er að geta þess jafnframt að með breytingu þessari er úr stjórnarskrá fellt það boð sem skyldar ríkisstjórnina til að standa löggjafanum skil á ríkisreikningi fyrir hvert fjárlagaár. Er það og nauðsynlegur undanfari þeirra breytinga sem fjmrh. hefur boðað í skýrslu ríkisreikningsnefndar um nýja uppbyggingu ríkisreiknings sem kynnt var í nóvember á fyrra ári. Er þar gert ráð fyrir að þegar uppgjöri hvers árs er lokið með gerð ríkisreiknings verði lagt fyrir Alþingi frv. til fjáraukalaga sem feli í sér samþykkt hans í stað sérstaks lagafrv. um samþykkt ríkisreiknings.
    2. gr. frv. kveður síðan á um starfslok þeirra yfirskoðunarmanna sem síðast voru kjörnir.
    Síðari breytingin, sem felst í ákvæði til bráðabirgða í þessu frv., er allt annars eðlis og kemur til af því að kjördagur alþingiskosninga hefur á liðnum árum stöðugt færst framar á almanaksárið. Á stundum hefur þetta bæði gert kjósendum erfitt fyrir að komast á kjörstað sem og frambjóðendum að undirbúa för þeirra þangað. Er þess vegna lagt til að kjördagur næstu reglulegu alþingiskosninga, sem fram eiga að fara 1999, verði annar laugardagur í maí þess árs í þeirri von að betur viðri á kjósendur og frambjóðendur á þeim tíma en fyrr á árinu. Er því ljóst, verði frv. samþykkt, að næstu alþingiskosningar verða laugardaginn 8. maí 1999 nema áður hafi komið til þingrofs.
    Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og þeirrar sérstöku nefndar sem kjósa ber um stjórnarskrána samkvæmt þingskapalögum og er sama nefnd og ég hef áður lagt til að hinu fyrra máli verði vísað til.