Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 17:08:00 (108)


[17:08]
     Ögmundur Jónasson :
    Hæstv. forseti. Hinn 19. maí fór fram allítarleg umræða um þau frumvörp sem hér liggja fyrir varðandi breytingu á innflutningi ÁTVR með áfengi til landsins. Ég tók meðal annarra þátt í þeirri umræðu og leiddi getum að því hvað það væri sem lægi að baki því að menn vildu fá þessar breytingar framkvæmdar. Mín niðurstaða er sú að ástæðurnar séu af tvennum toga. Annars vegar hugsjóna- og hagsmunaástæður en þannig er það pólitísk hugsjón hæstv. fjmrh. og ýmissa manna sem eru svipaðs sinnis og hann að breyta verslunarmátanum með áfengi, að einkavæða ÁTVR, og það er einnig ljóst að það eru hagsmunir ýmissa aðila í viðskiptalífi að fá þessar breytingar framkvæmdar. Þetta er sem sagt annar þátturinn.
    Hinn þátturinn er sá að ýmsir telja að til þess að við stöndum við ákvæði EES-samkomulagsins sé nauðsynlegt að framkvæma þessar breytingar. Þetta er af allt öðrum toga. Mér segir svo hugur að innan stjórnarliðsins séu þeir mjög margir sem væru tilbúnir að fylgja þessu máli einvörðungu vegna þess að þeir teldu síðari kostinn raunhæfan.

    Ég benti á það í mínu máli um daginn að í fyrsta lagi teldi ég ekki nauðsynlegt að gera breytingar á íslenskum lögum til þess að við stæðumst EES-sáttmálann og ef svo væri benti ég á tvær smávægilegar breytingar sem mætti gera til þess að taka af allan vafa í þessu álitamáli.
    Reyndar kom fram það sjónarmið í máli hæstv. fjmrh. hinn 19. maí að að hans mati þyrfti ekki að gera neinar breytingar á íslenskum lögum til þess að verslun ÁTVR með áfengi stæðist EES-samkomulagið. Hann sagði meðal annars að það væri, með leyfi hæstv. forseta:
    ,, . . .  álit íslensku ríkisstjórnarinnar að þeir viðskiptahættir sem hér eru stundaðir séu ekki í andstöðu við EES-samninginn . . .
``

    Að þeir viðskiptahættir sem hér væru stundaðir væru ekki í andstöðu við EES-samninginn. Reyndar bætir hæstv. fjmrh. síðar við í sinni ræðu að það hafi komið til úrskurður um áfengisverslun í Finnlandi en það er mjög erfitt að ráða af máli hæstv. fjmrh. hvaða ályktanir hann dregur af því. Hann segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Það breytir hins vegar ekki því að seint í desember eða í byrjun janúar, ég man ekki hvort var, en eftir að þessi ræða var flutt kom fram álit EFTA-dómstólsins vegna máls í Finnlandi sem var skotið til dómstólsins. Niðurstaða í því áliti er alveg ljós og þess vegna má búast við því og það liggur fyrir að svo geti farið að ef þetta mál verður sent dómstólnum geti niðurstaðan orðið eins og Eftirlitsstofnunin segir að hún eigi að verða . . .
``

    Það er mjög erfitt að ráða í meininguna úr þessu, en ég legg áherslu á að í máli hæstv. fjmrh. í umræðunni 19. maí kom mjög eindregið fram það álit íslensku ríkisstjórnarinnar að þeir viðskiptahættir sem hér eru stundaðir séu ekki í andstöðu við EES-samninginn.
    Ef þetta er rétt þá er hinn þátturinn eftir og þar finnst mér að við þurfum að heyra álit þeirra sem kveðast ætla að styðja þessi frumvörp, hvort þeir séu sammála hæstv. fjmrh. þegar hann reyndar fullyrðir fyrir þeirra hönd og fullyrðir fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar og ég leyfi mér að vitna aftur í hans ræðu, með leyfi forseta:
    ,,Eftir sem áður, og það er kannski það sem skiptir mestu máli vegna þess að fyrirspurnin kom þannig fram, er stefna íslenskra stjórnvalda hins vegar sú algerlega burt séð frá þessu`` --- þar er vísað til EES --- ,,að það sé hagkvæmt fyrir íslenska ríkið að breyta viðskiptaháttunum eins og hér er lagt til, það sé heppilegra að taka gjald af áfengi við innflutning í stað þess að gera það yfir búðarborðið eins og tíðkast hefur á undanförnum árum.``
    Mér finnst að við þurfum að fá málefnalega umræðu um það hvað raunverulega býr að baki. Hvers vegna er verið að samþykkja þessi frumvörp? Á hvaða forsendum er verið að gera það? Annars vegar fullyrti hæstv. fjmrh. úr ræðustóli hér um daginn að við þyrftum ekki að gera þetta samkvæmt EES-samningi og í sömu ræðu fullyrðir hæstv. fjmrh. að það sé álit íslenskra stjórnvalda að það sé heppilegra að taka upp breytta viðskiptahætti með áfengi og ég spyr: Er þetta sameiginlegt álit hæstv. ríkisstjórnar? Er hæstv. heilbrrh. sammála þessu áliti? Er hæstv. viðskrh. sammála þessu áliti? Ég nefni hæstv. viðskrh. sérstaklega vegna þess að fyrir kosningar hafði hann á orði að hann væri andvígur þeim breytingum sem hér er um að ræða. Og sama gildir reyndar einnig um hæstv. félmrh., að hann væri andvígur þeim breytingum sem hér er um að ræða. Þess vegna óska ég eftir málefnalegri umræðu um þetta mál þar sem menn gera rækilega grein fyrir sínum sjónarmiðum, hvað það er sem hafi breyst.
    Er það virkilega álit manna að það sé hagkvæmara að taka upp breytta viðskiptahætti og þá á hvaða forsendum? Á hvaða forsendum er það hagkvæmara? Er það hagkvæmara fyrir ríkissjóð? Erum við að tryggja þannig betri áfengisstefnu, heilbrigðisstefnu? Hæstv. heilbrrh. lýsti því yfir hér úr ræðustól um daginn að þetta mál snerist ekki aðeins um skattamál heldur um heilbrigðismál, um heilbrigðisstefnu. Ég held ekki.
    Mig langar til að vekja athygli á því að þingmönnum hefur borist mjög ítarleg greinargerð frá Starfsmannafélagi ÁTVR þar sem gerð er grein fyrir því hvernig eftirliti með áfengissölu er háttað í landinu nú um stundir og hvaða breytingar það hefði í för með sér fyrir þetta eftirlit ef þau frumvörp sem liggja fyrir þinginu yrðu samþykkt. Eins og sakir standa er allt áfengi selt á sama verði til almennings í landinu, til hótela og til veitingahúsa, en með því er reynt að tryggja að áfengi lúti ekki almennum markaðslögmálum.
    Allt áfengi sem selt er í veitingahús er merkt sérstaklega með miðum sem límdir eru á hverja flösku. Einnig er möguleiki að brennimerkja flöskurnar hverju veitingahúsi fyrir sig og má þá jafnframt sjá hvenær vínið var keypt. Og það er vakin athygli á því í þeirri skýrslu sem ég vitnaði til að það er um mjög marga möguleika að ræða fyrir viðskiptavini ÁTVR að nálgast þessa vöru og þannig geta veitingahúsin keypt samkvæmt vörulista ÁTVR og sérpöntunarþjónustu ÁTVR. Einnig er um að ræða frísvæðispantanir og sjálfstæðar pantanir, en í þessari greinargerð er ítarlega gerð grein fyrir hverjum þætti fyrir sig.
    Í síðari hluta þessarar samantektar er fjallað um það hvað gerðist ef frumvörpin yrðu samþykkt og mig langar, með leyfi forseta, til þess að vitna í þessa skýrslu orðrétt. Þar er t.d. vikið að merkingum og

eftirliti og þar segir:
    ,,Augljóst er að merkingum á áfengi sem selt er til veitingahúsa verður hætt. Í dag er net eftirlitsmanna, lögreglustjóra sem fara reglubundið í veitingahúsin og fylgjast með því að þau bjóði fram vörur frá ÁTVR en ekki smygl eða brugg. Staðreyndin er því miður sú að mjög hefur færst í aukana á síðustu mánuðum að veitingahúsin bjóði fram áfengi til sölu sem þau hafa fengið með vafasömum hætti og af vafasömum uppruna.`` Og síðan segir í greinargerðinni, með leyfi forseta: ,,Nánast verður útilokað fyrir áfengiseftirlitsmenn að framfylgja starfi sínu þegar merkingum verður hætt og áfenginu verður dreift frá mörgum aðilum til veitingahúsanna.
    Annar þáttur þessa eftirlits er sá að eins og kerfið er í dag er auðvelt að fylgjast með því hvaða áfengi veitingahúsin eru að kaupa. Auðvelt er að sjá hvort innbyrðis hlutföll þeirra áfengistegunda sem veitingahúsin eru að kaupa eru að breytast. Þær upplýsingar gefa oft fyrstu vísbendingu um hvort viðkomandi viðskiptaaðili sé farinn að versla annars staðar en hjá ÁTVR. Dæmi eru um að veitingahús dragi mjög úr vodkakaupum og kaupi lítið sem ekkert af því meðan kaup í öðrum tegundum eru óbreytt. Þessum upplýsingum er komið fljótt og vel til eftirlitsmanna þannig að þeir geti gripið strax inn í málin. Þessi eftirlitsþáttur hverfur einnig með gildistöku frumvarpanna.``
    Og áfram segir: ,,Á sama hátt eiga skattyfirvöld aðgang að upplýsingum um áfengiskaup veitingahúsa þannig að þau geti fylgst með skilum á virðisaukaskatti og annarri skattheimtu. Þetta eftirlit hlýtur að falla niður að mestu. Erfitt verður að fylgjast með kaupum veitingahúsa þegar birgjar geta skipt hundruðum. Í þessu máli er vert að minnast á að gjaldþrot meðal veitingahúsa eru tíð og tapast þar oft stórar fjárhæðir af opinberu skattfé.``
    Ég man ekki betur en hæstv. fjmrh. hefði áhyggjur af skattsvikum. Ég man ekki betur en ætti að gera stórátak til þess að efla eftirlit með skattsvikum. Var ekki talað um að það væru 11 milljarðar á sveimi í samfélaginu sem ekki skiluðu sér inn í opinbera sjóði, inn í sameiginlega sjóði landsmanna? Síðan kemur sami hæstv. fjmrh. og segir hér í ræðustól á Alþingi að það sé hagkvæmara að taka upp breytta viðskiptahætti sem sannanlega gera skattsvik auðveldari en þau nú eru. Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir því nákvæmlega hvað hér er átt við.
    Í skýrslu Starfsmannafélags ÁTVR er farið yfir öryggismál og ýmislegt sem lýtur að heilsuvernd og þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Í dag ber ÁTVR ábyrgð á öllum vörum sem fyrirtækið selur og tryggir réttan uppruna og rétta meðhöndlun þeirra vara sem fyrirtækið hefur á boðstólum. ÁTVR er í nánu samstarfi við einkasölurnar á Norðurlöndum og fær strax upplýsingar í hendur ef upp kemst að skemmdar eða gallaðar vörur séu í sölu hjá framleiðendum. Þannig er hægt að hindra innflutning af heilbrigðisástæðum ef framleiðendur eru vafasamir eða ef varan er gölluð. Hætta er á að þessi neytendavernd minnki þegar ÁTVR hefur ekki lengur hönd í bagga með innflutningnum og markaðslögmál fara að ráða.``
    Síðan segir varðandi innflutninginn: ,,Að frumvörpunum samþykktum munu umboðsmenn eiga þess kost að flytja inn áfengi beint án milligöngu ÁTVR. Það þýðir að ÁTVR mun hætta að fylgjast með heildarneyslu áfengra drykkja í landinu og eingöngu hafa tölur um áfengi sem fyrirtækið selur sjálft. Ekki er ljóst hvaða aðili mun hafa þessa gagnaöflun með höndum. Af heilbrigðisástæðum er þýðingarmikið að nákvæmar tölur um áfengisnotkun landsmanna liggi fyrir á hverjum tíma.``
    Og að lokum í greinargerð Starfsmannafélags ÁTVR er fjallað um vörugeymslur og lagerhald og ég ætla að vitna í þann kafla einnig, með leyfi forseta:
    ,,Umboðsmenn geta kosið að nota frísvæðið sem vörugeymslu fyrir áfengi. Þá mundu þeir flytja inn í smáskömmtum eftir því sem pantanir berast frá veitingahúsum. Þetta er þó ekki líklegt að gerist því að dýrt er að geyma vörur á frísvæðinu. Innflytjendur fá gjaldfrest á áfengisskattinum og virðisaukaskattinum í minnst hálfan mánuð og jafnvel lengur ef þeir eru í skjalalausum samskiptum við tollayfirvöld. Líklegast er því að umboðsmenn muni flytja vörurnar inn í eins ódýra birgðageymslu og hægt er. Ekki er ólíklegt að þeir muni nota bílskúra sína sem geymslur því að þá fellur enginn birgðakostnaður á vöruna og þá verða þeir samkeppnishæfari hvor við annan. Þá verða þeir að selja vöruna eins hratt og hægt er til þess að eiga fyrir skattinum síðar. Hver fylgist með því á hvaða tíma dags eða nætur þeir selja eða hverjum þeir selja? Er ekki ljóst að svona háskattaðar vörur verður að selja hvaða aðila sem til næst og undanfari sölunnar verði mikið auglýsingastarf til að efla eftirspurn eftir einstökum tegundum áfengis.`` Tilvitnun í greinargerð Starfsmannafélags ÁTVR er hér með lokið.
    Í þessu plaggi, í þessari greinargerð sem reyndar hefur verið dreift til allra þingmanna að því er mér skilst er að finna upplýsingar sem ég hef tiplað á og ég tel nauðsynlegt að fá umræðu um, ekki síst í ljósi þess að hér var fullyrt af hálfu hæstv. fjmrh. í fyrsta lagi að það væri stefna íslenskra stjórnvalda, algerlega burt séð frá öllum skuldbindingum gagnvart EES, að það sé hagkvæmt fyrir íslenska ríkið að breyta viðskiptaháttunum eins og hér er lagt til. Er þetta samdóma álit innan ríkisstjórnarinnar? Við eigum kröfu á því að hæstv. ráðherrar Framsfl. geri grein fyrir sinni afstöðu, ekki síst í ljósi þess að margir þeirra voru með yfirlýsingar sem gengu þvert á þetta fyrir kosningarnar. Í öðru lagi tel ég viðfangsefnið vera að kanna hverjar eru skuldbindingar okkar gagnvart EES. Mín skoðun er sú að við þurfum ekki að breyta okkar lögum til þess að standast EES-ákvæðin. Ég tek hins vegar undir að það kunni að vera álitamál á ferðinni. Ef svo er þá tel ég að það ætti að láta reyna á það hvort það yrði kært. Menn eru svoleiðis skjálfandi hér í hnjáliðunum af ótta yfir því að einhver dómstóll úti í Evrópu gangi gegn því áliti sem hér kemur fram. Mér finnst þetta mjög undarleg afstaða. Menn eiga að fara eftir sinni sannfæringu og reyna að búa til lög og reglur, samskiptareglur í þjóðfélaginu sem þeir telja vera þessu þjóðfélagi til góðs. Ef einhver álitamál eru þarna uppi, þá þarf bara að láta reyna á það. En fyrir þá sem hafa miklar efasemdir, þá er hægt að gera smávægilegar breytingar á íslenskum lögum til þess að ekki orki tvímælis. Það þarf að setja í lög ákvæði þess efnis að ÁTVR sé óheimilt að mismuna innflytjendum. Í annan stað þarf að tryggja að rækilega sé greint á milli framleiðslunnar, sem reyndar er nú að mestu leyti búið að leggja niður hjá ÁTVR, en ef eitthvað er eftir þá ætti að greina mjög rækilega milli framleiðslunnar annars vegar og sölunnar hins vegar og málið er leyst.
    Ég ætla ekki að taka meiri tíma einfaldlega vegna þess að við eigum eftir að heyra álit ríkisstjórnarinnar. Hæstv. ráðherrar verða að gera miklu betur grein fyrir sínum sjónarmiðum. Ég vitnaði í orð hæstv. fjmrh. frá því fyrir helgina. Þar eru ýmsar mótsagnir. Þar eru fullyrðingar um samdóma álit ríkisstjórnarinnar sem við hér flest töldum að væri ekki samdóma álit, menn væru að nálgast þetta mál á ólíkum forsendum. En til þess að trufla ekki þá umræðu eða það upplýsingaflæði, þá ætla ég að víkja úr pontunni.