Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 17:30:14 (110)



[17:30]
     Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Það kom fram í máli hv. 17. þm. Reykv. að óþarfi væri að breyta þessum lögum og hann væri þeirrar skoðunar að lögin sem nú gilda stæðust EES-skuldbindingar eða a.m.k. þyrfti aðeins að gera á þeim smávægilegar breytingar. Ég verð því miður að lýsa því yfir að ég er ósammála þessu mati. Það er nú svo í máli sem þessu að það þarf að meta með málefnalegum hætti og ég held að því miður sé mjög óhentugt að fara yfir það mjög nákvæmlega í umræðum á Alþingi, heldur sé þetta mál sem hentar betur að fara vel yfir við vinnslu í nefnd. Ef menn komast að annarri niðurstöðu en ég hef komist að við vandlega yfirferð á þessu máli, að það þurfi ekki að breyta lögunum, þá tel ég að það sé að sjálfsögðu hægt að taka tillit til þess. En ég vil taka það skýrt fram að eftir málefnalega og efnislega yfirferð á þessu máli þá er ég þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að breyta lögum.
    Menn spyrja: Hvað er það sem hefur breyst? Það sem hefur breyst er að það hefur fallið dómur í máli að því er varðar Finna. Þessi dómur liggur fyrir og það liggur fyrir rökstutt álit frá ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að Íslendingar þurfi að breyta lögum til þess að standast þær reglur sem þeir hafa undirgengist. Það er náttúrlega aðalatriði þessa máls að staðið sé við þær reglur sem við höfum undirgengist, hvort sem okkur líkar betur eða verr.
    Það kom fram hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni við umræður 19. maí að það hafi m.a. komið fram í bréfi til BSRB, dagsett 1. júlí 1992, að það væri ekkert í EES-samningnum sem hefði í för með sér að það þyrfti að gera breytingar á sölukerfi áfengismála á Íslandi. Ég vil leyfa mér að halda því fram að það sé nokkuð langt gengið að túlka þetta bréf með þessum hætti því að þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ekkert mælir gegn starfsemi ÁTVR sem í raun hefur haft með hendi einkaleyfi á smásölu fremur en við innflutning sem ekki mismunar á grundvelli þjóðernis.``
    Nú eru ekki gerðar neinar athugasemdir af hálfu ESA við smásölu ÁTVR. Það sem hins vegar eru gerðar athugasemdir við er að því er varðar innflutning. Það kemur mjög skýrt fram í þessu bréfi sem vitnað er til að þarna er verið að tala um smásölu eða eins og þar stendur: ,, . . .  fremur við innflutning sem ekki mismunar á grundvelli þjóðernis.``
    Nú hefur Eftirlitsstofnunin gert athugasemdir við þetta en ef vitnað er til þess sem segir í þessu bréfi í lið 3, kemur þar fram, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ekkert í samningnum veldur því að breytingar þurfi að verða á rekstrarformi fyrirtækja eða stofnana sem ríkið á eignaraðild að.``
    Þarna er verið að tala um rekstrarform og síðan kemur fram í framhaldinu: ,,Ef um er að ræða lögaðila í atvinnurekstri þurfa þeir að lúta banni við ríkisstyrkjum með þeim skilyrðum sem sett eru fram í 21. gr. samningsins. Þannig er ljóst að ríkisfyrirtækjum verði búin sömu rekstrarskilyrði og fyrirtækjum í einkaeign.``
    Ef síðan er farið í greinargerð sem birt var með EES-samningnum en segir þar um 16. gr. EES-samningsins um ríkiseinkasölu að tryggja verði að hún geri ekki greinarmun á grundvelli ríkisfangs

hvað snertir skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar. Þetta kemur fram í þeirri greinargerð sem fylgdi EES-samningnum á sínum tíma. Jafnframt segir í þessari sömu greinargerð að taka verði tillit til þess hvernig þetta ákvæði er túlkað innan ESB en þar hefur áherslan verið lögð á það að ávallt verði hægt að stunda svokallaðan samhliða innflutning og veita einkaréttarhafanum þar með samkeppni.
    Á sínum tíma, svo öllu sé haldið til haga í þessu máli, þá kom það fram af hálfu utanrrn. í samráði við fjmrn. og ÁTVR og líka í samráði við norsk stjórnvöld að talið væri hægt að tryggja með fullnægjandi hætti að milliganga ÁTVR væri engin viðskiptahindrun heldur hreint formsatriði. Eftirlitsstofnun EFTA hefur hins vegar gert athugasemdir við þessa málsmeðferð þar sem milliganga eða leyfisveiting, þótt hún sé formsatriði, sé ekki í anda samningsins. Efnislega breytir það engu um innflutning áfengis hvort ÁTVR er ævinlega formlegur innflutningsaðili eða ekki því að aldrei var ráð fyrir því gert að ÁTVR misnotaði aðstöðu sína til að tefja fyrir, hindra eða banna innflutning af einhverju tagi. Það er hins vegar alveg rétt að Eftirlitsstofnunin hefur krafist strangari túlkunar en upphaflega var ráð fyrir gert og við erum þar alveg á sama báti og Norðmenn.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð um þetta mál. Það er mín niðurstaða eftir að hafa farið yfir það að nauðsynlegt sé að breyta lögum. Ég hefði alveg eins getað sagt, eins og margir aðrir, að auðvitað hefði verið æskilegt að við þyrftum ekkert að breyta þessum lögum. En það er nauðsynlegt að standa við alþjóðlegar skuldbindingar, hvort sem viðkomandi þingmenn hafa verið sammála þeim eða ekki. Og við verðum að koma þannig fram í hinu alþjóðlega umhverfi að við viljum standa við okkar skuldbindingar. Ég er ekki sammála því að í málum eigi ávallt að láta reyna til hins ýtrasta á túlkanir fyrir dómstólum. Við verðum einfaldlega að gera það upp við okkur sjálf hvort við viljum standa við þessar upplýsingar. Þess vegna er það mitt mat að nauðsynlegt sé að gera þessar breytingar og við eigum að ganga frá þeim. En ég vildi mælast til þess að hv. þm. settu sig vel inn í þessi mál við umfjöllun í nefnd þar sem að sjálfsögðu verður reynt að leggja fram öll gögn um málið eins og dóminn sem gekk í málefni Finna, þann úrskurð sem kom frá ESA að því er okkur varðar og ýmislegt annað sem fram kemur í þessu máli.
    Ég á von á því að hv. þm. muni komast að svipaðri niðurstöðu og ég gerði eftir að hafa farið yfir málið, að það sé nauðsynlegt að breyta lögunum. Sömu niðurstöðu og Norðmenn komust að á sínum tíma eða núna fyrir stuttu að það væri jafnframt nauðsynlegt að breyta lögunum í Noregi. Ég held að það sé miklu betra að fara vel yfir málið við umfjöllun í nefnd en í umræðum á Alþingi.
    En út af fyrirspurn hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar þá tel ég að ekkert í því sem fram hefur komið af hálfu utanrrn. á sínum tíma hafi verið rangt, eins og mátti skilja af hans orðum, en það rétta sé að Eftirlitsstofnunin hafði verið með strangari túlkun á þessum ákvæðum en mátti skilja við umfjöllun á málinu hér á sínum tíma.