Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 17:40:42 (111)


[17:40]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er líka mikilvægt að hæstv. ráðherrar beri saman bækur sínar um efni þessa máls ekki síður en þingmenn. Hæstv. fjmrh. sagði það hér sl. föstudag, hæstv. utanrrh., og ítrekaði þar með yfirlýsingu sína frá síðasta þingi, að það væri ekki vegna EES-samningsins sem þetta frv. væri flutt heldur væri frv. flutt vegna þess að ríkisstjórn Íslands hefði komist að þeirri niðurstöðu að það skipulag sem lagt væri til í frv. væri betra út frá hagsmunum Íslendinga sjálfra hvað skipulagið snertir. Ég spurði hæstv. fjmrh. gagngert að því hvort yfirlýsingin sem hann gaf í desember á sl. þingi um að frv. væri ekki flutt vegna EES stæði enn og fjmrh. sagði það alveg skýrt við umræðuna síðasta föstudag að að dómi hans væri ekkert í EES-samningnum sem knúði á um það að skipan þessara mála á Íslandi væri breytt.
    Þess vegna hafa komið fram í umræðunni tvíþættar skýringar af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Annars vegar skýring hæstv. fjmrh., að hann telur skipulagið æskilegra í sjálfu sér sem verið er að leggja til, og hins vegar þær lýsingar sem hæstv. utanrrh. var nú að gefa. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. utanrrh. hvort þeir hafi ekki borið saman bækur sínar, hæstv. fjmrh. og hann, um þetta mál.
    Í öðru lagi vil ég minna hæstv. utanrrh. á það sem aðaltalsmaður Framsfl. Jón Helgason sagði einnig í umræðunni á síðasta þingi, að fyrirvari Íslands á sínum tíma var tengdur stefnunni í heilbrigðismálum, að Íslendingar áskildu sér rétt að hafa óbreytt skipulag á sölu áfengis vegna stefnunnar í heilbrigðismálum. Í ræðu sinni áðan vék hæstv. utanrrh. ekki einu orði að þessum efnisþætti fyrirvarans og ég vil því spyrja hæstv. utanrrh. að því hvort hann sé þar með að segja að utanrrn. hafi horfið frá tilvísun til heilbrigðismála varðandi þann fyrirvara sem gerður var af hálfu Íslands.