Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 17:57:00 (118)


[17:57]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það hlýtur að verða óskað eftir því að leiddar verði fram álitsgerðir lögfræðilegs eðlis af hálfu íslenskra stjórnvalda varðandi stöðu þessa máls og það ekki síst í ljósi þess sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. í upphafi umræðunnar þegar mælt var fyrir þessu og málið rætt að honum viðstöddum þar sem hann fullyrti að þetta mál væri ekki til komið vegna þeirra dóma sem fallið hafa heldur vegna þeirrar stefnu íslenskra stjórnvalda. Ég vil segja það vegna þess sem fram kom hjá hæstv. utanrrh. að því er varðar smásöluna að það er út af fyrir sig rétt að það mál er ekki hér uppi að þessu sinni en hitt er jafnvíst að það mál á eftir að koma fyrir dóma og ég er ekki viss um að þeir falli á þá leið sem verið er að gefa í skyn að það mál fái staðist. Það hefur verið mitt álit, ekki aðeins nú heldur í aðdraganda EES-samningsins fyrir utan það að ég taldi fullljóst ásamt mörgum fleiri að svona færi að því er varðar heildsöluna.