Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 18:34:28 (129)


[18:34]
     Kristín Ástgeirsdóttir (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Hæstv. forsrh. vitnar stöðugt til þeirra laga sem tóku gildi ekki alls fyrir löngu og varða einmitt hagsmunaárekstra og eðlilega og góða stjórnsýslu, stjórnsýslulögin. Það er rétt sem fram kom í hans máli að þau ná ekki til Alþingis og þess vegna er það okkar sjálfra að setja reglur um það hvernig við vinnum og hvernig við teljum eðlilegt að vinna. Því miður hafa ákaflega litlar umræður átt sér stað um hagsmuni alþingismanna sjálfra og hvernig þeir koma að málum. En það breytir ekki því að hér er um býsna sérstakt mál að ræða og ég vil vekja athygli á því að hæstv. félmrh., Páll Pétursson, lýsti því yfir í sjónvarpi á sunnudaginn að það væri álitamál hvort hv. þm. Vilhjálmur Egilsson væri hæfur til að vinna þetta mál þannig að það eru greinilega skiptar skoðanir á þessu. Það er kannski ekki það sem skiptir máli heldur fyrst og fremst það að við komum okkur saman um eðlileg vinnubrögð og hvernig beri að taka á málum þegar tilvik af þessu tagi koma upp. Mér finnst það ekki skipta máli hvort þar er um að ræða, eins og hæstv. forsrh. nefndi, persónulegar eignir eða eignir fjölskyldu eða hvort það eru hagsmunir vinnuveitanda viðkomandi eða hver sem í hlut á. Það sem skiptir máli er að ekki sé um hagsmunaárekstra að ræða, að menn séu ekki að ganga óeðlilegra erinda einhvers aðila heldur að löggjafinn uppfylli það skilyrði sem honum ber að uppfylla sem er það að gæta almannahags.