Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 18:42:23 (134)


[18:42]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það er nú þannig að við þingmenn eigum þann einan kost til að ræða formlega við forseta þingsins um þessi mál að ræða við þann forseta sem á stól situr hverju sinni. Ég hef almennt talið að þótt að hið endanlega vald sé í höndum forseta þingsins, sem kosinn er sérstaklega, þá sé hér forsætisnefnd samkvæmt þingsköpum sem starfar með forseta og ræðir mál. Svo ég tel ekki að aðrir forsetar séu lausir við þetta mál og geti bara vísað því yfir á þann forseta sem hér er kosinn sérstaklega, hv. þm. Ólaf G. Einarsson. Ég bið forseta að huga vel að yfirlýsingum sem hann gefur hér á forsetastól áður en hann lætur þær frá sér fara.
    Ég vil hins vegar ítreka það sem ég sagði áðan að þetta mál er sérstakt. Þessu máli má ekki blanda

inn í almennar umræður um hagsmunaárekstur þingmanna. Málið er sérstakt vegna þess að orsök þess er kæra. Formleg kæra til fjölþjóðlegrar stofnunar sem þingmaður hefur undirritað í nafni embættis sem hann gegnir utan þings. Ég tel þess vegna að sá úrskurður sem hér er verið að biðja um sé ekki almennur úrskurður um hagsmunaárekstra þingmanna heldur sérstakur úrskurður í því máli hvort þingmaður sem lagt hefur fram kæru gagnvart alþjóðlegri stofnun geti jafnframt verið ábyrgðaraðili að umfjöllun málsins hér innan þings.
    Ég bið forseta þingsins að koma því rækilega áleiðis til þess sem hér flytur svo úrskurðinn endanlega að a.m.k. af minni hálfu er eingöngu verið að ræða þetta mál út frá upphafi þess sem er hin formlega kæra hv. þm. Vilhjálms Egilssonar í nafni Verslunarráðsins. Það er atriði sem við hljótum að fjalla um hér í þinginu því ef þingmenn fara að beita kæruvaldi sínu þó þeir séu einstaklingar utan þings gagnvart fjölþjóðlegum stofnunum og ætli svo að fjalla um afleiðingar þeirrar kæru hér innan þingsins þá erum við kannski komin enn lengra í að blanda þessu saman en almennt hefur verið talið eðlilegt. Það er t.d. ekki talið eðlilegt gagnvart dómstólum að sá aðili sem kærir sé jafnframt dómari. En þingið ætlar að taka upp þau vinnubrögð hér að sá þingmaður sem kærði verði jafnframt umfjöllunaraðili.
    Ég ítreka það að lokum, virðulegi forseti, ég er eingöngu hér að tala um úrskurð sem byggist á þessu afmarkaða, sérstaka tilviki þegar þingmaður er upphafsmaður kærunnar.