Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 18:50:17 (138)


[18:50]
     Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson beindi nokkrum spurningum til mín sl. föstudag varðandi heilbrigðisþátt þess frv. sem hér er til umfjöllunar um breytingar á áfengislögum en hann var tímabundinn og þar með gat ég ekki svarað honum þá og er fyrst að svara honum nú. Það var ekki vegna þess að ég væri ekki tilbúin til þess þá heldur var hv. þm. mjög tímabundinn.
    Hans fyrirspurnir voru mjög í takt við það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hafði spurt fyrr um daginn en greinilegt að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur misst af. Þannig að það sem ég segi nú er bein endurtekning á því sem ég sagði á föstudagsmorgun.
    Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. að samkvæmt lögum eru áfengisvarnir á sviði heilbrrn. og því mikilvægt að sá þáttur frv. komi inn í hv. heilbr.- og trn. Ég veit að allshn. mun taka því vel að senda þann hluta frv. til umfjöllunar þar.
    Það er mjög mikilvægt að mínum dómi að allt eftirlit sé gott með innflutningi og það mikilvægasta sem ég ætla að endurtaka aftur og aftur að aðgengi ungmenna að áfengi verði ekki greiðari eftir að þetta frv. verður að lögum.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson spurði einnig að því hvernig heilbrrn. hefði komið að þessu máli. Því er til að svara að við höfum fylgst grannt með því hvað hefur verið að gerast bæði í Svíþjóð og Noregi varðandi þessi mál. Norðmenn hafa verið að auka sitt eftirlit með reglugerðum og við munum fylgjast áfram með því hvernig þeim tekst til og fylgja í kjölfarið ef þeim vegnar vel í þeim málum.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði nokkurra spurninga líka hér áðan, m.a. varðandi stefnu í áfengismálum. Því er til að svara að á þessu kjörtímabili verður lagt fram frv. um áfengis- og vímuefnavarnir. Heilbrrn. mun leggja sig fram við að hlaða þann varnargarð sem nauðsynlegur er til að magn áfengis í umferð aukist ekki. Og ég endurtek enn og aftur sérstaklega varðandi börn og ungmenni.
    Varðandi tóbaksvarnafrumvarpið, sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði líka um, sem dagaði uppi á síðasta þingi, hvenær það verður lagt fram: Það verður lagt fram á haustþingi. Ég veit að það verður mikil umræða um það mál og það verður örugglega ekki afgreitt á þessu þingi þó það yrði lagt fram þannig að við teljum það rétt að leggja það fram á haustþingi.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði einnig um smásölu á áfengi. Ég tel það rétt að smásala á áfengi sé óbreytt en ég segi, virðulegi forseti, ég deili áhyggjum mínum með þeim sem hafa áhyggjur af þeim vanda sem áfengisbölið er og ég tel það mjög mikilvægt að heilbrrn. sé mjög vel vakandi varðandi alla þá varnarmúra sem hægt er að hlaða í kringum þetta mál.