Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 18:54:18 (140)


[18:54]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að koma hér og verða við þeirri ósk að reyna að veita svör við þeim fyrirspurnum sem ég bar fram. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að ég þurfti vegna sérstakra ástæðna að fara af fundi sl. föstudag, hálftíma áður en fundi lauk.
    Ég verð að segja það því miður að mér fannst tilraun hæstv. heilbrrh. --- og er nú mjög vont að á þeim örstutta tíma sem ég hef hér til að ræða við ráðherrann sé hann truflaður af öðrum þingmönnum --- mér fannst ekki koma fram svör af hálfu hæstv. ráðherra við því aðalatriði sem spurt var um. Það var sú spurning hvort heilbrrn. hefði fjallað um þær breytingar sem óhjákvæmilega verður að gera á eftirlitskerfinu með sölu á áfengi til vínveitingahúsa og hugsanlega einnig til einkaaðila í ljósi þeirra breytinga sem á að gera samkvæmt þessu frv.
    Það er alveg ljóst á grundvelli þeirra umræðna sem hér hafa farið fram og t.d. á grundvelli greinargerðar frá starfsfólki Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins að þegar veitingahúsin í landinu hætta að vera með sérmerktar flöskur til sölu þá opnast hér leiðir fyrir aðila sem selja brugg, smygl o.s.frv. að koma þeim varningi á framfæri við þá mörg hundruð aðila sem hér stunda veitingarekstur. Það var lykilspurningin sem ég bar hér fram í ýmsum liðum að það væri óhjákvæmilegt að breyta eftirlitskerfinu í landinu ef heilbrrn. ætlaði að uppfylla skyldur sínar samkvæmt lögum um áfengisvarnir á sviði heilbrigðismála.
    Síðan í öðru lagi sú spurning sem ráðherrann vék ekkert að en hefur komið fram enn frekar hér í dag að fyrirvarinn sem settur var af hálfu Íslands á sínum tíma í EES-samningnum var tengdur stefnumótun í heilbrigðismálum. Það kom ekki fram svar frá hæstv. ráðherra um að hvaða leyti heilbrrn. hefði út frá því sjónarmiði komið inn í umfjöllun utanrrn. og fjmrn. um þetta mál.