Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 18:58:08 (142)


[18:58]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðherra að ég taki ekki oft góð og gild svör sem koma frá hæstv. ráðherrum, það geri ég iðulega hér í þinginu. Ég vil gera það einnig nú gagnvart þessu síðasta svari hæstv. heilbrrh. Hæstv. heilbrrh. var að lýsa því yfir að ekki væri lokið þeirri vinnu í heilbrrn. hvernig ætti að breyta eftirlitinu eða tryggja það að þessi breyting sem í frv. felst leiddi ekki til aukinnar neyslu áfengis og breytingar samkvæmt gildandi háttum í þessum efnum. Það er afar mikilvægt að það komi hér fram nú við umræðuna að þessari vinnu er ólokið. Það er alveg rétt hjá hæstv. heilbrrh., það er hægt að setja ákvæði um að merkja flöskur. En hæstv. fjmrh. lýsti því hér yfir, og það felst í því frv. sem hann leggur hér fram og ætlast til þess að þingið samþykki, að það verði ekki gert. Það er einmitt þess vegna sem við hér mörg hver höfum verið að knýja á um að það fengjust svör í málinu.
    Ég held að ræða hæstv. heilbrrh. hér áðan sýni það rækilega að þetta mál kemur svo illa undirbúið til þingsins hvað varðar samræður milli ráðuneyta að það er óhjákvæmilegt að þingnefndir fjalli mjög ítarlega um málið.
    Ef hæstv. ráðherra er eitthvað leiður yfir því að þurfa að svara fyrirspurnum frá mér um þetta frv. þá vil ég beina því til hæstv. ráðherra að lesa ræðu þingmanns Framsfl. Jóns Helgasonar 8. des. 1994. Þar er fjöldinn allur af fyrirspurnum til ráðherra út af þessu máli betur orðaðar en ég hef gert hér. (Forseti hringir.) Þannig að ef það er stjórnmálalega og tilfinningalega auðveldara fyrir hæstv. ráðherra að svara fyrirspurnum frá forustumanni Framsfl., þeim sem áður gegndi því þingsæti sem núv. forseti hefur nú hjá sér, oddvitasæti Framsfl. á Suðurlandi þá beini ég því til hæstv. ráðherra að lesa ræðu hv. þm. Jóns Helgasonar frá 8. des. 1994.