Stjórnarfrumvörp um stjórn fiskveiða og GATT

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 13:38:19 (150)


[13:38]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega athyglisvert að þótt því hafi verið lýst yfir að samkomulag um breytingar á stjórn fiskveiða hafi verið mkikilvæg forsenda fyrir myndun þessarar ríkisstjórnar, þá verður það fyrst á morgun sem þingflokkar stjórnarflokkanna fjalla um niðurstöður ríkisstjórnarinnar varðandi þær breytingar. Það liggur í dag ekkert fyrir um það hvort þingflokkarnir í heild muni samþykkja þau frumvörp sem ríkisstjórnin var að fjalla um í morgun, hvað þá hver afstaða einstakra þingmanna stjórnarinnar kann að verða gagnvart þessum frumvörpum.
    Hæstv. forsrh. vék ekkert að því sem ég var einnig að fjalla hér um áðan hvað ríkisstjórnin hygðist fyrir með þinghaldið. Væntanlega er þá upphafleg áætlun ríkisstjórnarinnar um 10 daga þinghald eða svo úr sögunni. Fæðingarhríðarnar hafa verið erfiðar innan ríkisstjórnarinnar um frumvörpin um breytingar á stjórn fiskveiða og GATT-frumvörpin. Þau komu ekki hingað til þingsins fyrr en í þriðju viku þinghaldsins. Hæstv. forsrh. var að lýsa því yfir að það yrði fyrst í þriðju viku þinghaldsins sem frumvörpin yrðu sýnd hér í þinginu. Mér sýnast litlar líkur á því að þetta þing ljúki störfum á næstunni. Það er greinilegt á þeirri yfirlýsingu sem hæstv. forsrh. gaf að um þessi mál hefur verið verulegur ágreiningur á vettvangi stjórnarflokkanna og þess vegna óhjákvæmilegt að þingið muni þurfa þó nokkurn tíma til þess að fjalla um það einnig.