Stjórnarfrumvörp um stjórn fiskveiða og GATT

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 13:40:22 (151)


[13:40]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir að það vekur undrun að heyra að hér stefni í að annarri viku þinghaldsins ljúki án þess að þau frumvörp sem hér er spurt um birtist þingmönnum. Það var áformað að hafa þinghald í 10 daga og þau áform komu fram hjá stjórnarflokkunum. Það var hæstv. forsrh. sem boðaði til þings nú í vor og þá kom það fram að fyrirhugað var að þingið stæði í 10 daga. Við sem erum að reyna að átta okkur á hver störf okkar eru fram undan höfum þá gert ráð fyrir að þingið gæti staðið í tvær vikur eða e.t.v. fram á þá þriðju en þessir 10 dagar verða nú liðnir án þess að svo stórpólitísk mál séu komin fram eða birtist þingmönnum frá stjórnarflokkunum. Ég vil láta það koma fram úr þessum ræðustóli að fyrir viku síðan rituðu þinglokksformenn bréf til forsrh. og óskuðu eftir því að ef áformað væri að frumvörp varðandi GATT og breytingar í sjávarútvegsmálum ættu að koma fram á þessu þingi, þá væri eðlilegt að þau lægju fyrir áður en við færum hér í umræðu um stefnuræðu forsrh. Við fengum ekki svör við því og frumvörpin hafa ekki sést, en ég hlýt að taka undir það að þetta er afar undarlegt fyrirkomulag, að hér verðum við búin að vera í tvær vikur án þess að þessi stóru frumvörp komi fram.
    Ég tek undir þær spurningar sem fram hafa komið: Hvernig áforma fyrirliðar stjórnarflokkanna að við högum störfum okkar á næstunni ef á að ljúka vinnu við þessi frumvörp og gera lagabreytingar á þessu

svokallaða vorþingi?