Aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 13:50:09 (156)

[13:50]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Eins og kunnugt er var í Hæstarétti sl. fimmtudag kveðinn upp dómur í máli ákæruvaldsins gegn manni vegna meints brots hans á umferðarlögum og reglugerð settri samkvæmt þeim um hámarksöxulþunga bifreiðar. Í héraði var málið rekið fyrir héraðsdómi Austurlands og fór dómarafulltrúi með málið og dæmdi í því. Í Hæstarétti krafðist ákærði þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur yrði ómerktur á þeirri forsendu að sú skipan dómsvalds í héraði að fela dómarafulltrúa meðferð og úrlausn máls sé með öllu ósamrýmanleg 2. gr. stjórnarskrárinnar og jafnframt sé sú skipan andstæð 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um sjálfstæðan og óvilhallan dómstól.
    Hæstiréttur felldi hinn áfrýjaða dóm úr gildi og alla meðferð málsins fyrir héraðsdómi Austurlands á þeirri forsendu að staða dómarafulltrúa eins og henni er nú fyrir komið uppfylli ekki grunnreglur stjórnarskrár um sjálfstæði dómsvalds svo sem þær verða skýrðar með hliðsjón af 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um sjálfstæða og óvilhalla dómara til þess að þeir geti í eigin nafni og á eigin ábyrgð farið með þau dómstörf sem þeir nú sinna. Dómur Hæstaréttar verður vart skilinn með öðrum hætti en svo að dómarafulltrúar geti ekki að óbreyttum lögum sinnt neins konar dómstörfum.
    Á landinu öllu eru 38 héraðsdómarar og auk þess starfa hjá héraðsdómstólunum 13 fulltrúar sem hafa verið löggiltir til að framkvæma dómsathafnir. Dómarafulltrúar hafa allir sinnt dómstörfum með einum eða öðrum hætti en misjafnt er á milli umdæma hvaða störfum þeir hafa sinnt. Frá gildistöku aðskilnaðarlaga 1. júlí 1992 hefur málatími hjá héraðsdómstólum styst verulega frá því sem áður var.
    Staða og hlutverk dómarafulltrúa í dómskerfinu hefur verið talsvert í umræðu meðal lögfræðinga og fræðimanna og hefur það sætt nokkurri gagnrýni að í framkvæmd sé ekki gerður greinarmunur á störfum þeirra og dómara. Réttarfarsnefnd vinnur nú að gerð frv. til dómstólalaga og er þess að vænta að það liggi fyrir á næsta ári. Gert er ráð fyrir að í því frv. komi fram tillögur að framtíðarskipulagi dómstólanna í landinu og þar með hvort og með hvaða hætti viðhalda eigi fulltrúakerfinu sem svo hefur verið nefnt. Með hliðsjón af því að verið er að vinna að frv. til dómstólalaga eru í frv. því sem hér er til umræðu einungis lagðar til þær breytingar einar á lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði sem hafa sem minnsta röskun í för með sér frá gildandi fyrirkomulagi en fela í sér að dómarafulltrúum verði tryggt sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu til að þeir geti sinnt dómstörfum þar til varanlegar tillögur um framtíðarskipulag dómstólaskipunar liggja fyrir.
    Niðurstaða Hæstaréttar um að vísa málinu frá héraðsdómi virðist aðallega byggjast á því að með því að fulltrúar séu ráðnir til starfa með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti og löggildingu dómsmrh. og að hægt sé að víkja þeim úr starfi án þess að bera það undir dómstóla geti framkvæmdarvaldið bundið enda á ráðningu þeirra. Telur Hæstiréttur slíkt fyrirkomulag í andstöðu við grunnreglur stjórnarskrár um sjálfstæði dómsvalds.
    Með hliðsjón af því sem ég hef áður sagt er lagt til í 1. gr. frv. að fulltrúar verði framvegis skipaðir til að framkvæma dómsathafnir í umboði og ábyrgð dómstjóra eða héraðsdómara þar sem eigi er skipaður dómstjóri. Kemur þetta fyrirkomulag í stað ráðningar og löggildingar dómsmrh. Í greininni er auk þess ákvæði um að embættisgengi dómarafulltrúa verði óbreytt frá gildandi ákvæði.
    Í 2. gr. frv. er lagt til að dómarafulltrúar og setudómarar verði eigi leystir frá störfum nema með sama hætti og dómarar, þ.e. með dómi. Með þessu tel ég að fullnægt sé þeim skilyrðum sem nauðsynleg eru til að dómstörf dómarafulltrúa teljist ekki í andstöðu við stjórnarskrána um sjálfstæði dómsvalds.
    Í forsendum dóms Hæstaréttar er gagnrýnt að dómarafulltrúar sinni dómstörfum með sama hætti og dómarar. Að þessu tilefni kom fram það sjónarmið frá réttarfarsnefnd að í frv. þessu yrðu ákvæði um að dómsvald dómarafulltrúa yrði takmarkað með því að þeir færu ekki með og leystu að efni til úr einkamálum þar sem vörnum er haldið uppi eða opinberum málum frá því að þau koma til aðalmeðferðar.
    Ég hef áður lýst því að nú er verið að vinna að frv. til dómstólalaga þar sem tillögur verði gerðar um hvort og með hvaða hætti eigi að viðhalda fulltrúakerfinu. Jafnframt hef ég sagt að í frv. þessu eru einungis lagðar til þær breytingar á lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði sem hafi sem minnsta röskun í för með sér frá gildandi fyrirkomulagi en nauðsynlegar eru til að dómstörf fulltrúa teljist ekki í andstöðu við stjórnarskrána. Ég tel að það brjóti ekki bága við stjórnarskrána að fela fulltrúum að fara með og dæma mál með þeim hætti sem gert hefur verið enda sé réttarstaða þeirra að öðru leyti tryggð í samræmi við þau nýju sjónarmið sem fram koma í nefndum dómi Hæstaréttar.
    Herra forseti. Ég hef þá gert grein fyrir tilefni og meginefnisatriðum þessa frv. Eins og á stendur er býsna brýnt að málið fái svo skjóta meðferð í þinginu sem nokkur kostur er og það eru því vinsamleg tilmæli mín til hv. nefndar og þingsins að þess verði freistað að afgreiða frv. skjótt þannig að sú óvissa sem nú er uppi í störfum dómstólanna vari í sem allra skemmstan tíma.
    Ég legg svo til að málinu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. allshn.