Forsetaúrskurður um hæfi þingmanns til umfjöllunar um þingmál

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 14:04:14 (158)


[14:04]
     Svavar Gestsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir þennan úrskurð. Ég tel út af fyrir sig ekki við hæfi að hefja umræður um hann hér. Ég tel engu að síður rétt að benda á að það er nauðsynlegt að ræða það á öðrum vettvangi hvort ekki verður að setja almennar reglur um vanhæfi þingmanna við afgreiðslu tiltekinna mála hér í þinginu og almennar reglur um þau störf sem þingmenn gegna eða geta gegnt úti í þjóðfélaginu og komum við þá að grundvallaratriðum þingskapalaganna sjálfra og þar með að ákvæðum stjórnarskrárinnar um stöðu þingmanna og ég tel sjálfsagt í ljósi þessarar umræðu um hv. þm. Vilhjálm Egilsson að þessi mál verði rædd.
    Hitt þakka ég forseta fyrir að benda á að það er auðvitað í valdi þingmannsins að segja sig frá umfjöllun um málið og ég skora á hv. þm. að gera það og beita sér fyrir því að einhver annar maður í samræmi við þingsköp stýri umfjöllun þessa máls í efh.- og viðskn. eða að efh.- og viðskn. taki ákvörðun um það, jafnvel í blóra við þingmanninn ef nauðsyn krefur, að einhver annar en hann fjalli um málið. Ég tel að málið liggi þannig, það sé augljóst að það sé í hæsta máta vafasamt að mati verulegs hluta þingmanna að hv. þm. gegni því trúnaðarstarfi að stýra umfjöllun nefndarinnar um þau mál sem hér liggja.