Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 14:07:42 (161)

[14:07]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegur forseti. Það hafði verið óskað eftir því á sínum tíma af hálfu þingflokka stjórnarandstöðunnar að auk hæstv. fjmrh. yrðu hæstv. heilbrrh. og hæstv. utanrrh. viðstaddir umræðu um þetta mál. Ég hef tekið eftir því að hæstv. utanrrh. er hér í húsinu og getur væntanlega komið til umræðunnar þegar á þarf að halda, en hins vegar tel ég mjög miður, virðulegi forseti, að þessari umræðu skuli vera haldið áfram án þess að hæstv. heilbrrh. sé viðstaddur.
    Eins og fram kom síðdegis í gær, þá eru landslög með þeim hætti að hæstv. heilbrrh. ber ábyrgð á áfengisvörnum og öllum þeim lögum sem kveða á um það að tryggja að neysla áfengis hafi ekki skaðvænleg áhrif á einstaklinga, fjölskyldur eða samfélag. Nú upplýsti hæstv. heilbrrh. það í gær, undir lok umræðunnar í gær að heilbrrn. hefði ekki --- ég undirstrika --- hefði ekki framkvæmt neina athugun á því til hvaða aðgerða þyrfti að grípa vegna þeirra breytinga sem hér er verið að leggja til. Hæstv. heilbrrh. vísaði því hins vegar til heilbr.- og trn. þingsins að kanna þann þátt málsins. Ég tel það í sjálfu sér óeðlilegt að ráðherra vísi þeirri ábyrgð sem ráðuneyti ber samkvæmt lögum yfir á þingnefndina. En fyrst svo er, þá vildi ég nú óska eftir því að nýkjörinn formaður heilbr.- og trn. sem hér er væntanlega í húsinu verði viðstaddur þessa umræðu en jafnframt ítreka athugasemd mína um að það er mjög slæmt að heilbrrh. skuli ekki sjá kost á því að vera hér áfram við umræðuna.
    Ég tel að umræðan um þetta mál hafi nú þegar leitt það í ljós að sá þáttur málsins sem snýr að heilbrigðismálum hefur ekki fengið neina sérstaka athugun. En jafnframt hefur það komið hér rækilega í ljós að þær breytingar sem á að gera með sölu- og dreifingarkerfinu eru þess eðlis að þær hljóta að hafa verulegar afleiðingar hvað snertir skipan áfengismála, áfengisneyslu og viðskipti með áfengi. Það er t.d. alveg ljóst að með þessu frv. er verið að opna fyrir víðtæka samkeppni um sölu á áfengi sem ekki hefur verið í landinu fram að þessu. Og eins og fram hefur komið hefur það ekki verið markmið með rekstri áfengissölunnar til þessa að auka neysluna sérstaklega. Nú er það hins vegar alveg ljóst að með þeim breytingum sem hér er verið að leggja til er vísað á þá nýskipan að samkeppni milli innflutningsaðila verði veruleg.
    Í öðru lagi er það ljóst að með þessari skipan verður það gerlegt fyrir alla innflytjendur að koma sér upp sínum eigin birgðastöðvum og dreifa áfengi til veitingahúsa sem kaupa af þessum innflutningsaðilum frá eigin birgðastöðvum. Þar með felur það í sér að það er hugsanlegt að koma hér upp nokkur hundruð áfengisbirgðastöðvum, smáum, víða um land sem er algjörlega andstætt því sem tíðkast hefur í landinu og ég leyfi mér að fullyrða andstætt skilningi þorra manna í landinu á því hvað sé eðlilegt í áfengismálum. Ég tel það mjög miður að hæstv. fjmrh. eða hæstv. heilbrrh. skuli ekki hafa haft hreinskilni til þess að gera þjóðinni grein fyrir þessari breytingu. Ég ætla þó af umræðum hér í gær að hæstv. heilbrrh. hafi ekki verið búinn að átta sig á þessum þætti málsins því að mér fannst það koma skýrt fram í yfirlýsingum hæstv. heilbrrh. í gær að svo er ekki.
    Ég vil einnig vekja athygli hæstv. utanrrh. á því að fjmrh. sagði hér við umræðuna að þess mætti vænta að túlkun stofnana EES-svæðisins kynni að leiða til þess að það yrði að gefa smásöluna líka frjálsa. Það er þess vegna ekki rétt sem hæstv. utanrrh. sagði hér í gær að það lægi alveg skýrt fyrir að þessi breyting mundi ekki ná til smásölunnar. Með sama hætti og hæstv. fjmrh. rökstuddi þá breytingu sem nú er verið að leggja til með því að vísa í álit sem fram hefði komið og hæstv. utanrrh. gerði hér í gær, þá vakti hæstv. fjmrh. athygli á því að það gæti verið að það sama ætti við um smásöluna. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. utanrrh. að því: Hefur utanrrn. látið framkvæma sjálfstæða athugun á því að það sé alveg öruggt að sá fyrirvari, sem hæstv. utanrrh. var að lýsa hér í gær að væri þó alveg skýr og ætti við um smásöluna, mundi halda?
    Ég vil einnig vekja athygli hæstv. utanrrh. á því að af hálfu tollvörugeymslunnar er búið að dreifa nú þegar upplýsingaefni sem ber heitið: Ný þjónusta í áfengis- og tóbaksviðskiptum, Direct Free Zone Delivery, og er nú svo mikið haft við að það er hafður sérstakur undirtitill á ensku til þess að kynna þessa nýskipan. Í þessari lýsingu tollvörugeymslunnar kemur það skýrt fram að með þessari breytingu geta viðskiptavinir leitað beint til tollvörugeymslunnar og tollvörugeymslan muni taka að sér að koma pöntunum á áfengi til viðskiptavinarins í lok vinnudags hvort sem er innan bæjar eða utan. Og í þessu efni er ekki bara átt við heildsala, hæstv. utanrrh., sem selja vínið áfram til veitingahúsa, heldur geta menn einnig annast þessi viðskipti við tollvörugeymsluna til einkaafnota.
    Ég vil einnig vekja athygli utanrrh. á því að fyrir liggur ályktun frá Kaupmannasamtökum Íslands þar sem yfirvöld eru hvött til þess að afnema einkasölu ríkisins á bjór og léttum vínum og þeirri skipan komið á að neytendur geti keypt þessa vöru í matvöruverslunum.
    Eins og ég sagði áðan hefur hæstv. heilbr.- og trmrh. lýst því yfir hér í þinginu að úr því að heilbrrn. hefur ekki skoðað þann þátt þessa máls sem snýr að áfengisvörnum, þá sé óhjákvæmilegt að heilbr.- og trn. geri það. Ég tel þess vegna mjög mikilvægt að nýkjörin heilbr.- og trn. sinni þeim skyldum sínum sem felast í framkvæmd laganna um áfengisvarnir.
    Mér hafa borist í hendur upplýsingar um neyslu á áfengi á Norðurlöndum og þar kemur alveg skýrt fram að í því landi, Danmörku, þar sem frjálsræðið hefur verið mest í sölumálum, hefur áfengisneyslan einnig verið til muna meiri heldur en annars staðar á Norðurlöndum þar sem önnur skipan hefur verið. Noregur og Ísland eru hér í neðstu sætunum varðandi neyslu á áfengi með um það bil 3 lítra ef ég les þetta rétt, en í Danmörku eru það yfir 10 lítrar af áfengi á samsvarandi mælikvarða. Allt að því þrefaldur munur er á Íslandi og Noregi annars vegar og Danmörku hins vegar hvað snertir neyslu á áfengi. Þar með liggur það fyrir að sölufyrirkomulagið á áfengi hefur afgerandi áhrif á neyslu þessa vímuefnis.
    Ég tel það vera, eins og ég sagði hér fyrst við umræðurnar, mjög miður að þegar þetta frv. er lagt fram þá fylgir því engin greinargerð frá heilbr.- og trn. um viðbrögð varðandi þá hættu að þessi breyting leiði til aukinnar neyslu á áfengi.
    Eins og fram hefur komið hér í umræðunum verða lagðar niður allar merkingar á því áfengi sem verður selt til veitingahúsa og selt í veitingahúsunum. Fram kemur í álitsgerð frá starfsmönnum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins að mismunandi sala á léttum vínum og sterkum vínum er eitt aðalupplýsingatækið til þess að yfirvöld sem eru að kanna hugsanlegt smygl á áfengi og sölu þess eða sölu á bruggi geti framfylgt eftirlitsskyldu sinni. Með þessu frv. á að leggja niður alla möguleika að veita slíkar upplýsingar og leiðirnar fyrir þá sem smygla hér sterku víni eins og vodka og gini inn í landið til þess að koma því í umferð á veitingahúsunum án nokkurs eftirlits hafa stóraukist miðað við þessar breytingar. Það er einnig ljóst að samkeppni milli innflytjenda verður mun meiri. Þessi skipan felur það t.d. í sér að þegar innflytjendur hafa möguleika á að búa til sínar eigin birgðastöðvar þar sem þeir geta afhent veitingahúsum vínið að degi sem nóttu, helgum dögum sem hversdags, þá skapast alls konar möguleikar til þess að bjóða bætta þjónustu til að auka viðskiptin. Það bjóðast einnig möguleikar á því að efna til margvíslegra kynninga. Það bjóðast einnig þeir möguleikar að veita afslátt, hæstv. utanrrh., vegna þess að í þessu frv. er ekkert kveðið á um að það þurfi að vera sambærilegt verð til vínveitingahúsanna frá þessum heildsöluaðilum. Í dag er það hins vegar þannig að þegar Áfengis- og tóbaksverslunin annast söluna, þá er trygging fyrir sambærilegu verði. Með þessum breytingum er opnað á þann möguleika að framleiðendur á víni sem vilja t.d. koma sínum vörumerkjum inn á markað á Íslandi geta falið íslenskum umboðsaðilum að veita afslátt um ákveðinn tíma til þess að tryggja viðskipti ákveðinna veitingahúsa og efla þannig kaup bæði veitingahúsanna og viðskiptavina þeirra á tilteknum tegundum, m.a. til að byggja upp markaðinn. Og það er alþekkt aðferð í viðskiptum að beita lækkun vöruverðs um ákveðinn tíma til þess að afla sér nýrra viðskiptavina. Með þessu frv., hæstv. utanrrh., er í fyrsta sinn opnaður sá möguleiki. Ég fullyrði að það er ekkert í EES-samningnum sem knýr á um að það sé gengið svona langt í breytingum eins og gert er með þessum frumvörpum.
    Á sama hátt og hæstv. heilbrrh. lýsti því hér yfir, að það væri samkvæmt hennar ósk að heilbr.- og trn. ætti að grandskoða þetta frv. út frá áfengisvarnarsjónarmiðunum, þá vona ég að hæstv. utanrrh. geti ásamt þingnefndinni lagst yfir það verkefni að skoða hvort ekki er hægt að fara aðrar leiðir til þess að fullnægja hugsanlegum skyldum EES-samningsins án þess að þurfa að fela í sér allar þessar víðtæku breytingar.
    Ég hef í þessari umræðu rifjað nokkuð upp ræðu sem hv. þáv. þm. Jón Helgason flutti á Alþingi 8. des. sl. þegar þetta frv. kom fyrst til umræðu. Án þess að ég ætli nokkuð sérstaklega að elta Framsfl. í þessu máli vegna þess að ég tel að þetta mál sé í raun og veru hafið yfir allan flokkslegan ágreining, þá finnst mér mjög merkilegt að öllum þeim efnislegu athugasemdum sem fram komu í ræðu hv. þm. Jóns Helgasonar við þessa umræðu, og enginn þingmaður setti fram jafnítarlegar efnislegar athugasemdir og hv. þm. gerði í þessari umræðu, skuli vera ýtt út af borðinu eins og hendi sé veifað af hálfu bæði þingforustu og ráðherra Framsfl. Allt í einu við stjórnarskiptin þurfi menn endilega að beygja sig undir nýja stefnu í áfengismálum. Áfengismál hafa hingað til verið talin óflokkspólitísk mál. Ég get vel skilið að hv. þm. Guðni Ágústsson gangi úr salnum vegna þess að ef hann hefði einhvern manndóm í sér, þá ætti hann auðvitað a.m.k. að gera tilraun til þess hér í salnum að halda uppi merki fyrirrennara síns, Jóns Helgasonar.
    Auðvitað gæti ég rifjað upp í ræðustólnum ýmis af þessum ummælum, þau liggja fyrir í þingtíðindum, en mig langar þó aðeins að nefna hér örfá að lokum í minni ræðu. Hv. þm. Jón Helgason sagði fyrir fáeinum mánuðum síðan, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,En eins og menn hafa heyrt er í athugasemdunum við frv. eingöngu fjallað um þetta málefni út frá viðskiptalegu sjónarmiði. Hvernig hægt sé að afla ríkissjóði tekna og hvað það sé miklu betra að láta einkaaðila annast þetta og allt eftirlit verði einfaldara. Hins vegar er ekkert minnst á heilbrigðisþáttinn, áfengisneysluna, áfengisvandamálið eða félagslega þáttinn. Ég mun víkja að því síðar ef tími verður til en þetta eru þau atriði sem fyrirvarinn í EES-samningnum byggðist á. Þ.e. að áfengi skapaði heilbrigðisvandamál og því væri hér einkasala og tilgangur hennar væri ekki fyrst og fremst sá að afla ríkissjóði tekna heldur reyna að draga úr þeim afleiðingum sem áfengisneyslan hefur í för með sér.``
    Hv. þm. Jón Helgason sagði einnig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hér er því að sjálfsögðu um algera stefnubreytingu að ræða . . . ``
    Hv. þm. Jón Helgason sagði einnig: ,,Það er sem sagt ljóst að möguleiki er fyrir innflytjendur að flytja inn og geyma í tollvörugeymslu. Þaðan geta þeir afgreitt til þeirra sem hafa smásöluleyfi en þeir hljóta líka að hafa leyfi til að fara með þetta í sínar geymslur og dreifa þaðan, það er a.m.k. ekki minnst á það hvernig það eigi að vera. Það er möguleiki að dreifingarstöðvar áfengis verði býsna víða út um hvippinn og hvappinn. Hvernig á þá að hafa eftirlit með slíkum dreifingarstöðvum?``
    Það er þegar í desember sem aðalfulltrúi Framsfl. við þessar umræður víkur að þessum þætti málsins sem við höfum hér verið að draga fram og hæstv. heilbrrh. sagði í gær að væri auðvitað mjög mikilvægur en heilbrrn. hefði bara ekkert skoðað hann. Það er eins og fulltrúar Framsfl. bæði í þingflokki og í ríkisstjórn hafi alls ekki farið ofan í þær efnislegu athugasemdir sem hér komu fram af hálfu Jóns Helgasonar á sínum tíma.
    Þingmaðurinn vék að aukinni unglingadrykkju. Hann vék einnig að því hvernig heildarneysla áfengis hefði aukist hjá yngri aldurshópum og hann vék einnig að því hvernig þessi breyting mundi að öllum líkindum hafa þau áhrif á rekstrarhagkvæmni Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins að mjög auðvelt væri að halda því fram eftir breytinguna að það væri óhagkvæmt að reka Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins áfram sem smásölufyrirtæki.
    Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að mikill meiri hluti þjóðarinnar hafi verið sæmilega sáttur við þá skipan sem verið hefur á áfengissölukerfinu á Íslandi. Við höfum búið í áratugi við þá skipan að menn hafa getað keypt til landsins þær tegundir sem þeir hafa óskað eftir ef þeir hafa komið þeim óskum á framfæri. Útsölur frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafa verið í flestum byggðarlögum og þeim hefur fjölgað á undanförnum árum. Í þriðja lagi hafa veitingahús getað keypt áfengi með þeim hætti að eftirlit er haft með því hvenær kaupin fara fram svo að þeim sem smygla áfengi til landsins eða framleiða áfengi hér á landi verði gert erfiðara að koma þeim varningi í umferð og sölu.
    Það hefur engin krafa komið frá almenningi í landinu um að breyta þessu kerfi. Krafan hefur verið frá fáeinum hagsmunaaðilum í viðskiptaheiminum sem ætla sér að græða á aukinni --- og ég legg áherslu á það --- aukinni áfengissölu á Íslandi. Það er óheillaspor og vont ef það verður meðal verka þessa fyrsta þings á kjörtímabilinu að afgreiða lög af því tagi.