Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 14:40:48 (164)


[14:40]
     Ögmundur Jónasson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir að koma hingað í ræðustól og fjalla um þessi mál því að mér finnst núna kannski vera kominn fyrsti vísir að málefnalegri umræðu um þetta mál, en málefnalega umræðu af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur gersamlega skort. Það er búið að setja fram fjölmargar málefnalegar spurningar sem menn hafa óskað eftir að heyra rök ríkisstjórnarinnar fyrir án þess að þau kæmu fram.
    Í máli hæstv. utanrrh. áðan kom fram að hér væri um að ræða áfengisvarnarmál og heilbrigðismál. Á því væru tvær hliðar. Nú hafa menn úr okkar röðum, sem höfum talað í þessu máli af hálfu stjórnarandstöðu, bent á mörg rök sem öll hníga í þá átt að þessar breytingar sem hér er verið að gera séu til ills. Og nú leikur mér forvitni á að heyra hver hin hliðin á málinu er.
    Við höfum bent á það í fyrsta lagi að verið sé að færa hundruð milljóna af opinberu skattfé, sem nú er í öruggri innheimtu, út í óvissuna. Við höfum bent á það að merkingar á áfengi og eftirlit varðandi sölu til veitingahúsa og hótela verði einnig í óvissu. Það hefur komið fram að áfengi verður misdýrt eftir landshlutum, eða hver hefur áhuga á að dreifa því úti á landi þar sem magn er lítið og flutningskostnaður er hár? Hver kemur til með að fylgjast með því að umboðsmenn selji eingöngu til veitingahúsa en ekki til almennra neytenda? Hvernig verður því eftirliti háttað? Hér erum við komin að þeim þætti sem hæstv. utanrrh. vék sérstaklega að, að við ætluðum að standa vörð um smásöluna. Hér erum við komin ærið nærri henni.
    Nú er það svo að einkaaðilar mega flytja inn það magn sem þeim sýnist til einkanota. Er ekki augljóst að sett verður upp verslun í tollvörugeymslunni þar sem hver getur verslað sem vill eins og vikið var að hér áðan að væri þegar að koma upp?
    Með öðrum orðum þakka ég fyrir þann vísi sem við höfum hér að málefnalegri umræðu um þessi mál, en ég óska eftir miklu nákvæmari útskýringum og röksemdafærslu af hálfu ríkisstjórnarinnar sem sækir svo fast að fá þessi mál afgreidd.