Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 14:46:04 (166)


[14:46]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Þetta er víst þriðji dagurinn sem við fjöllum um þetta mál og má öllum ljóst vera að það er miklu umfangsmeira en hæstv. fjmrh. vildi vera láta í sinni framsöguræðu og miklu flóknara og á því miklu fleiri hliðar en ráðherrann vildi vera láta. Þess vegna er alveg ljóst að það er margt sem þingmenn óska eftir að fram komi við 1. umr. og fá svör ráðherranna við ýmsu sem ekki liggur alveg ljóst fyrir.
    Ég held, virðulegi forseti, að það væri mjög ágætt og mundi flýta fyrir umræðunni ef hæstv. ráðherrar sem um þetta mál fjalla væru viðstaddir þessa umræðu því að ég hef gjarnan viljað beina til þeirra fyrirspurnum við 1. umr. málsins og á ég þá þar við hæstv. utanrrh., a.m.k. til að byrja með og kannski síðar í þessari umræðu staðgengil hæstv. fjmrh.
    Ég get haldið áfram máli mínu, virðulegi forseti, þar til hæstv. utanrrh. þóknast að heiðra okkur með nærveru sinni en ég nefndi að á þessu máli væru margar hliðar og mér finnst nokkuð ljóst af þeirri umræðu sem orðið hefur að stjórnarflokkarnir, annars vegar ráðherrar Sjálfstfl. og hins vegar ráðherrar Framsfl., leggja í það mjög ólíka merkingu af hverju þetta mál er hér flutt og af hverju svo mikið liggur á að fá það lögfest á þessu þingi.
    Hæstv. fjmrh. hefur ítrekað haldið því fram að fyrst og fremst væri um það að ræða að málið sé flutt vegna þess að hann telji það skynsamlega ráðabreytni að hafa þessa skipan mála á. Hann endurtók það sem hann sagði í því efni þegar mál þetta var til umræðu fyrir einu eða tveimur árum síðan. Hins vegar þrýsti nú á það að Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert kröfu um að þessi breyting verði hér gerð. Hins vegar heyrist mér fyrst og fremst á máli ráðherra Framsfl. að þetta mál sé hér komið út af síðasttalda atriðinu, að ekki sé um að ræða stefnu ríkisstjórnarinnar um breytingu á skipan áfengismála heldur sé þetta mál fyrst og fremst flutt til þess að verða við kröfum sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur sett fram. Því er mjög mikilvægt að gera sér ljóst hvort málið sé þannig að það þurfi í raun og sanni að keyra það fram á þessu þingi.
    Ég vil í því sambandi spyrja hæstv. utanrrh. um það sem hv. 5. þm. Reykn. drap á í umræðu um þetta mál fyrir helgi. Þá vitnaði hún til þess að Norðmenn hefðu frest til næstu áramóta að uppfylla þessa kröfu og ég vil spyrja hæstv. ráðherra, hvort hann telji málið ekki það umfangsmikið, ekki síst með tilliti til þess að við eigum alveg eftir að fjalla um hvort og þá hvaða áhrif þetta hefur varðandi áfengisstefnuna og heilbr.- og trn. á að fjalla um þetta mál, að rétt sé að ráðherrann beiti sér fyrir því að við fengjum þennan frest til næstu áramóta til þess að þinginu gæfist ítarlegra tóm til þess að fjalla um þetta mál.
    Ég er alveg sannfærð um það og ég heyrði það af orðum hæstv. heilbrrh. að ráðherrann hefur miklar áhyggjur af þessu máli. Það lá í orðum ráðherrans að það þyrfti að skoða þetta mál mjög vandlega í heilbr.- og trn., m.a. til þess að þingið gæti fullvissað sig um það og ekki síst heilbr.- og trn. að hér væri ekki um að ræða neinar breytingar á áfengisstefnunni, þ.e. þessar breytingar gætu ekki haft þau áhrif að um breytingu á áfengisstefnunni yrði að ræða. Þess vegna er það mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að fá fram afstöðu hæstv. utanrrh. við 1. umr. málsins, hvort hann telji ekki fullt tilefni til þess að láta á það reyna að við fengjum lengri frest í þessu máli líkt og Norðmenn hafa.
    Það hefur verið drepið á mjög margt í þessari umræðu sem hefur verið mjög gagnlegt og ég skal ekki fara að endurtaka hér. Þó eru nokkur atriði, virðulegi forseti, sem mér þykir rétt að ræða frekar en fram hefur komið.
    Hæstv. utanrrh. nefndi áðan að hann teldi, ef ég skildi orð hans rétt, ekki rétt að láta reyna á þetta mál fyrir dómstólum. Það væri frekar ef um væri að ræða breytingu á smásölunni, en ég tel, virðulegi forseti, að menn eigi alls ekki að ýta því frá sér miðað við forsögu málsins að það geti ekki komið til álita að láta reyna á þetta mál fyrir dómstólum. Og þá er ég að vitna til þess, virðulegi forseti, að Norðurlöndin stóðu alla tíð í þeirri trú að hér væri ekki um breytingu á skipan áfengismála að ræða. Og það kom margítrekað fram að framkvæmdastjórn EB hafi í samningsviðræðum ekki dregið þá túlkun í efa að ekki væri um að ræða að þessum samningi fylgdi að við værum að breyta skipan áfengismála. Til þess má m.a. vitna að Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð gáfu þessa yfirlýsingu og áréttuðu með því að áfengiseinkasala væri mikilvægur þáttur í stefnu þessara ríkja í heilbrigðis- og félagsmálum. Og þessi túlkun þeirra var ekki dregin í efa. Ég gæti vitnað til þess, með leyfi forseta, sem fram kom t.d. hjá forstjóra ÁTVR á fundi með efh.- og viðskn. Á þeim fundi greindi forstjóri ÁTVR frá að forstjórar einkasalanna á Norðurlöndum hefði sagt honum að samningurinn hefði engar breytingar í för með sér sem máli skipta á stöðu þeirra fyrirtækja sem þeir stjórnuðu. Og í minnisblaðinu greinir Höskuldur jafnframt frá því að fulltrúi utanrrn. hafi komið á sama fund. Segir Höskuldur að fulltrúi utanrrn. hafi tekið undir frásögn sína og hann, þ.e. fulltrúinn, hafi jafnframt talið að ÁTVR hefði þegar leyst úr vandanum með því að veita svo umfangsmikla sérpöntunarþjónustu að í raun gæti hver og einn fengið þá vöru sem hann óskaði. Þar sem ummæli einstakra manna sem mæta á nefndarfundi hjá Alþingi eru ekki bókuð er ekki hægt að fá staðfest hjá nefndinni hvort hér sé rétt eftir haft.
    Það sem ég er að vitna í hér, svo það fari ekki á milli mála, virðulegi forseti, er samantekt fjmrn. frá 23. febr. 1995. Reyndar kom það sama fram í svari við fyrirspurn á Alþingi vorið 1992, en þar spurði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson að því hvaða áhrif EES-samningurinn hafi að mati ríkisstjórnar á núverandi lög og reglur um innflutning, sölu og dreifingu áfengis hér á landi. Fyrirspurninni var beint til dómsmrh. og í svari dómsmrh. kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta, að Norðurlöndin innan EFTA hafi ekki litið svo á að í EES-samningnum fælist skuldbindingar um að fella einkasölu niður. Framkvæmdastjórn EBE hafi ekki andmælt þeim túlkunum samkvæmt upplýsingum utanrrn. að því gefnu að einstökum vörutegundum væri ekki mismunað eftir uppruna. Samkvæmt yfirlýsingu fjmrn. liti það ekki svo á að samningurinn um EES fæli í sér neinar kvaðir um það að breyta því einkasölufyrirkomulagi sem nú væri við lýði. Við værum frjálsir að því að halda núverandi kerfi áfram að því tilskildu að vörutegundum væri ekki mismunað.
    Það liggur því mjög skýrt fyrir, hæstv. utanrrh., á hvaða forsendum að því er þetta tiltekna mál varðar þingmenn t.d. voru að samþykkja EES-samninginn. Þessari túlkun var ekki mótmælt, eins og ég segi, af framkvæmdastjórn EB. Þess vegna er það mjög sérstakt að hægt er að breyta þessari túlkun eftir að kæra hefur borist. Ég ítreka það að það er fyrst eftir að kæra hefur borist frá Verslunarráði Íslands að Eftirlitsstofnun EFTA fer á stúfana að kanna þetta mál. Þess vegna er það engin goðgá að menn velti fyrir sér hvort ekki sé ástæða til þess að láta reyna á þetta á þeirri forsendu og miðað við forsögu málsins.
    Ég vil líka spyrja að því, ég sé að hæstv. forsrh., starfandi fjmrh. er hér mættur, hvort ráðherrar í ríkisstjórn hafi látið kanna það sem fram kom í máli hv. 17. þm. Reykv. þar sem hann heldur fram að það sé nægjanlegt að gera ákveðna breytingu á lögum um ÁTVR sem tryggi að einkaleyfi verði ekki beitt sem banni. Hv. þm. las upp þá breytingu sem hann taldi nægja en þar kom fram að breyta þyrfti lögunum á þennan veg, með leyfi forseta:
    ,,Komi fram ósk um að tiltekin tegund áfengis eða tóbaks verði flutt til landsins má eigi synja þeim tilmælum nema með vísun til annarra laga en þessara, enda hafi sá er tilmælin bar fram tryggt að innflytjandi fái andvirði vörunnar greitt.``
    Ég tel fulla ástæðu til þess, ekki síst þar sem mér heyrist á hæstv. utanrrh. að hann fylgi þessu máli eingöngu eftir út af kröfu Eftirlitsstofnunarinnar og það sé ekki í hans huga að breyta neitt skipan mála nema vegna þessarar kröfu, að á það verði látið reyna hvort breyting á lögum um ÁTVR nægi til þess að uppfylla þær kröfur sem Eftirlitsstofnunin hefur sett fram. Ég tel reyndar, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin eða þá nefndin sem fær málið til umfjöllunar fái fram álit sérfræðinga á því hvort þessi lagabreyting mundi duga til.
    Ég skal út af fyrir sig, forseti, ekki ræða þetta mál mikið meira við þessa umræðu. Við eigum eftir að ræða tvö mál sem tengjast þessu máli og það er einn hluti sem einmitt hefur komið fram í þessum umræðum að þingmenn margir hverjir sem hér hafa talað hafa áhyggjur af því að það sé ekki í hendi sem hæstv. fjmrh. hefur sagt að ríkissjóður verði í engu af tekjum vegna þessara breytinga á skipan áfengismála og vitna þar til þess hvort ætlunin sé að breyta lögum sem feli þá í sér að innflytjendur á áfengi og tóbaki fái engan gjaldfrest á opinberum gjöldum heldur þurfi að greiða þetta allt á þeim tíma þegar varan kemur til landsins, en það gæti haft áhrif á það hvernig þessar tekjur skila sér í ríkissjóð. Ég vil vitna í þessu sambandi og tel að hæstv. fjmrh. eða starfandi fjmrh. skoði þetta mál að það kemur fram í minnisblaði frá Starfsmannfélagi ÁTVR, með leyfi forseta:
    ,,Á sama hátt eiga skattyfirvöld aðgang að upplýsingum um áfengiskaup veitingahúsanna þannig að þau geti fylgst með skilum á virðisaukaskatti og annarri skattheimtu. Þetta eftirlit hlýtur að falla niður að mestu. Erfitt verður að fylgjast með kaupum veitingahúsanna þegar birgjar geta skipt hundruðum. Í þessu máli er vert að minnast á að gjaldþrot meðal veitingahúsa eru tíð og tapast oft stórar fjárhæðir af opinberu skattfé.``
    Það er líka ekki bara að verið sé að breyta áfengisstefnunni eins og sumir halda fram heldur hafa margir sett fram rök fyrir því að eitthvað muni tapast af þeim tekjum sem ríkissjóður hefur haft af þessari skipan mála.
    Ég ætla að ljúka máli mínu, virðulegi forseti, þó að freistandi væri að ræða það ítarlega sem hefur komið fram og ég hef verulegar áhyggjur af en það er hvernig eftirlitinu verði háttað. Ég vil spyrja hæstv. starfandi fjmrh. hvort hann hafi engar áhyggjur af þeirri breytingu sem verður á eftirlitsþættinum þar sem ýmsir hafa áhyggjur af því sé hætta verði á að opnað verði fyrir smygl eða brugg inn á veitingahúsum. Einnig hefur verið spurt um það, hæstv. starfandi fjmrh., hver fylgist með því að umboðsmenn selji eingöngu til veitingahúsa en ekki til almennra neytenda og hvernig því eftirliti verði háttað. Þetta eru mjög mikilvægir þættir í málinu sem væri mjög æskilegt að fá svör við í þessari umræðu.
    Virðulegi forseti. Ég skal ljúka máli mínu. Ég tel mjög miður að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hafi ekki talið ástæðu í þessari umræðu til að svara þeirri áskorun sem fram kom hjá hv. 8. þm. Reykn. og ég tók undir að þrátt fyrir úrskurð forseta um hæfi hans til þess að stýra nefndinni þegar nefndin fjallar um

þetta mál sé það á valdi hans sjálfs að víkja þá sæti þar sem hæfi hans hafi verið dregið í efa telji hann ekki ástæðu til að blanda sér inn í umræðuna þannig að það liggi skýrt fyrir hver það verði sem stýri nefndinni þegar málinu verður vísað til efh.- og viðskn. Í lokin verð ég að treysta því að efh.- og viðskn. sendi málið til umsagnar heilbr.- og trn. meðan hún fjallar um þetta mál.