Gjald af áfengi

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 15:11:24 (170)


[15:11]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um gjald af áfengi. Eins og þegar hefur komið fram í umræðum sem tengjast þessum málum er um að ræða þrjú mál sem fylgjast að og má segja að sum prinsippatriði varðandi málið og tilurð þess og ástæða fyrir flutningi þessa máls og hinna tveggja hafi þegar verið rædd nokkuð ítarlega nú á vorþinginu. Einnig má vísa til umræðna sem hafa farið fram um málið áður, bæði í desember á liðnu ári og í febr. sl.
    Frv. er eins og áður hefur verið skýrt frá nánast samhljóða frv., sem lagt var fyrir síðasta þing, og var þá ekki afgreitt. Málið hafði gengið til efh.- og viðskn. og hafði meiri hluti nefndarinnar mælt með samþykki þess.
    Með frv. er verið að leggja til að tekið verði upp nýtt gjald er skuli leggja á allt áfengi og því gjaldi, áfengisgjaldi sem svo er kallað, er ætlað að koma sérstaklega í stað vínandagjalds á áfengi. Hið nýja gjald er eins og hið gamla gjald föst krónutala á hreinan vínanda í áfengi umfram tiltekið mark. Breytingin er hugsuð í kjölfar afnáms einkaleyfis ÁTVR til innflutnings á áfengi og við lítum á hana sem aðlögun að þeim viðskiptaháttum sem tíðkast í nágrannaríkjum okkar og sem lið í því að uppfylla þær skuldbindingar sem hafa verið gerðar í milliríkjasamningum. Við þessar aðstæður er talið eðlilegra og einfaldara fyrir ríkið að afla þeirra tekna af áfengissölu sem taldar eru æskilegar á hverjum tíma með því að leggja skatt á innflutning þess og framleiðslu í stað þess að fá tekjurnar sem hagnað af starfsemi einkasöluaðila. Meginhluti af tekjum ríkissjóðs vegna sölu áfengis eins og hluti álagningar ÁTVR, sem kallaður hefur verið vínandagjald, gæti verið föst krónutala á hvert prósentustig á vínanda á rúmmáli sem er umfram 2,25%. Áfengisverslunin hefur auk þess verðtengdan álagningarþátt sem til þessa hefur skilað tekjum er nægt hefðu til að standa undir heildsölu og smásölukostnaði við dreifingu af sölu áfengis. Með frv. er gert ráð fyrir að tekna ríkissjóðs af sölu áfengis verði fyrst og fremst aflað með gjaldi á áfengi á sama hátt og tíðkast með ýmsar vörur sem bera vörugjald. Gert er ráð fyrir því að þetta gjald líkt og vínandagjaldið nú verði föst krónutala á hvern sentilítra af vínanda sem er umfram 2,25 sl í hverjum lítra áfengis. Eftir þessa breytingu mun Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verða með álagningu á áfengissölu sem standa straum af kostnaði fyrirtækisins og skila hæfilegum arði af því og fjárfsting þess.
    Ekki er gert ráð fyrir að settar verði reglur um heildsölu- og smásöluálagningu ÁTVR fremur en annarra sem annast sölu áfengis en áfengi verður áfram virðisaukaskattsskylt.
    Það er ljóst að breytingarnar sem frv. gerir ráð fyrir muni hafa töluverð áhrif á starfsemi Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Hlutverk þess fyrirtækis sem innheimtuaðila á gjöldum ríkissjóðs verður afnumið og meginhluti tekna ríkissjóðs á sölu áfengis verður innheimtur af öðrum innheimtuaðilum.
    Í athugasemdum við frv. kemur fram það mat ríkissjóðs að tekjur ríkissjóðs með hinni breyttu skipan verði sambærilegt eða því sem næst það sama og tekjur með hinni gömlu skipan. Það kemur reyndar fram í þessum tölum að það skakki um 50 millj. ríkissjóði í óhag í beinum samanburðartölum en jafnframt er tekið fram að á móti þeirri 50 millj. kr. lækkun á beinum tekjur ríkisins af áfengissölu þá ættu að geta komið inn nokkuð auknar tekjur, eins og þar segir, af framleiðslu- og innflutningsstarfsemi einkaaðila. Því er það mat fjmrn. að sú breyting sem lögð er til með þessu frv. hafi ekki teljanleg áhrif á tekjur ríkissjóðs.
    Frv. er út af fyrir sig einfalt og skýrir sig sjálft en ég tel að ekki sé hægt að gera því skóna að með þessu frv. sé um að ræða breytta stefnu ríkisvaldsins varðandi heilbrigðisþátt áfengis því að svo miklu leyti sem hátt verð á áfengi dregur úr kaupum á því og neyslu á því þá verður hér ekki munur á því að þær skatttekjur eða þau gjöld sem af þessum varningi hljótast verða sömu og varnaðaráhrifin sem fylgja gjaldtökunni ættu því að vera sambærileg. Þannig er ekki hægt að halda því fram að það sé verið að breyta neinum grundvallarþáttum í stefnu íslenskra stjórnvalda varðandi áfengi.
    Það má því reikna með að áfengisverð verði í grundvallaratriðum hið sama eftir breytinguna og áður og varnaðaráhrif áfengisverðsins ættu því að vera söm og jöfn eða sambærileg eftir breytinguna og var fyrir hana.

    Ég tel að þó það verði formmunur og breyting eins og að framan sagði á starfsemi Áfengisverslunar ríkisins með því að innheimtuhlutverk fyrirtækisins breytist þá ætti umfang fyrirtækisins ekki að breytast að sama skapi vegna þess að meginþáttur fyrirtækisins hefur verið og verður áfram smásöluþáttur þess og með þessu frv. og hinum öðrum tveimur sem samleið eiga með þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því að sá þátturinn breytist.
    Með hliðsjón af því að frv. er einfalt og með hliðsjón af þeim umræðum sem hafa farið fram um önnur tengd mál þá leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.