Gjald af áfengi

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 15:27:02 (175)


[15:27]
     Ögmundur Jónasson :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frv. að þessu sinni því eins og fram hefur komið í umræðunni er ákveðið samhengi á milli þessa frv. og hins sem hefur verið til umræðu undanfarnar klukkustundir og síðustu daga og rétt kannski og ekki óeðlilegt að umræðan tengist svolítið saman. Hins vegar fannst mér mjög athyglisvert það sjónarmið sem fram kom í máli hæstv. forsrh. hér áðan að við værum að fara inn í nýjan tíma. Á sínum tíma hefðu menn haft áhyggjur af breytingu á Viðtækjaverslun ríkisins. Menn hefðu haft áhyggjur af Visa-kortum, áhyggjur sem hefðu reynst ástæðulausar, og þess vegna ættum við væntanlega að vera áhyggjulaus núna þegar við tökum upp einkasölu á brennivíni. (Gripið fram í.) Að við einkavæðum brennivínssöluna, setjum brennivínssöluna í einkahendur. Nú hafa reyndar verið færð rök fyrir því í máli fjölmargra þeirra sem hafa tjáð sig um þessi mál hvort samhengi er á milli dreifingarmátans annars vegar og neyslunnar hins vegar. Það kom síðast í dag fram í máli hv. 8. þm. Reykn. að samhengi væri þar á milli.
    En við erum einnig að tala um fjármuni ríkisins sem hæstv. forsrh. telur ekki ástæðu til að hafa þungar áhyggjur af. Við eigum að treysta fólki, segir hann. Staðreynd málsins er sú að sala á áfengi nemur 12--13 milljörðum kr. á ári. Við erum að tala um mjög stórar fjárhæðir. Það hefur ekki lítið farið fyrir þeirri umræðu hér í þessum sal og í þjóðfélaginu almennt hve alvarlegt böl skattsvik eru og meinsemd í þjóðfélaginu. Menn ætla að um 11 milljarðar kr. skili sér ekki inn í sameiginlega sjóði landsmanna vegna skattsvika. Nú hafa verið færð rök fyrir því að þau frv. sem hér liggja fyrir og þær breytingar sem þau boða muni gera alla skattheimtu ótryggari en nú er. Það eru ekki einhverjar vangaveltur út í bláinn heldur eru það röksemdir sem fram hafa komið. Þannig að það er einn liðurinn í þessum málum.
    En stóra málið er náttúrlega heilbrigðisþátturinn og áfengisvarnaþátturinn. Það voru að berast upplýsingar um það núna hingað inn í þingið að fyrr í dag hefði verið boðað til fréttamannafundar af hálfu helstu almannasamtaka í landinu sem hafa látið sig áfengisvandann varða. Þar er um að ræða Vímulausa æsku, Heimili og skóla, Samfok og átakið Stöðvum unglingadrykkju. Þessi samtök tala ekki um þessi mál á eins léttvægum nótum og hæstv. forsrh. leyfði sér að gera áðan, að um væri að ræða eitthvert gamaldags afturhald hér sem væri í ætt við afstöðu gegn breytingum á Viðtækjaverslun ríkisins eða andstöðu við Visa-kort á sínum tíma. Nei, þessi samtök eru að vara við því að þær lagabreytingar sem hér er boðað til muni stuðla að aukinni sölumennsku á áfengi og þar af leiðandi aukinni áfengisneyslu í landinu. Hafa í för með sér aukin umsvif einstaklinga í áfengissölu og aukinn ábata einstaklinga af áfengisneyslu, þ.e. markaðsvæðingu alveg ofan í og niður í kjölinn; minna eftirlit með framkvæmd áfengislaga, t.d. í vínveitingahúsum. Það verði minna eftirlit með áfengissölu almennt, bæði til barna og unglinga, auk þess sem við höfum vikið að hér áður, að tekjur ríkissjóðs muni verða minni eftir því sem eftirlitið dvínar eða dregið er úr því.
    Í yfirlýsingu sem kemur frá fyrrnefndum fréttamannafundi segir orðrétt:
    ,,Við hljótum því að beina þeim tilmælum til alþingismanna að þeir standi sem fastast vörð um heilbrigði landsmanna og tryggi virka áfengismálastefnu með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.``
    Nú langar mig til að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh. á hvern hátt hann vill taka þeim tilmælum sem hafa borist frá þessum helstu samtökum í landinu sem láta sig áfengisvandann varða, Vímulaus æska, Heimili og skóli, Samfok og átakið Stöðvum unglingadrykkju til þessara mála. Vill hann beita sér fyrir því, hæstv. forsrh., að sjónarmið þessara aðila verði virt og á hvern hátt mun hann beita sér í því efni?