Gjald af áfengi

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 15:36:20 (177)


[15:36]
     Ögmundur Jónasson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er ekki með samanburðartölur eða ágiskanir sem menn hafa haft uppi í öðrum löndum um hve umfangsmikil skattsvik eru þar. Hitt er ljóst að það er metið að um 11 milljarðar mundu skila sér inn í ríkissjóð ef allt væri með felldu. En skattsvikin ráðast af ýmsum þáttum. Þau ráðast af þeim viðhorfum sem eru ríkjandi í þjóðfélaginu, en þau ráðast einnig af lögum og eftirliti sem beitt er gagnvart skattsvikunum. Það sem við höfum verið að benda hér á í þessari umræðu er að möguleikar til slíks eftirlits verða miklu minni eftir þær breytingar sem hér eru boðaðar.
    Hæstv. forsrh. segir að við eigum að einbeita okkur að smásölunni, ekki innflutningsversluninni. Við höfum hins vegar bent á það í okkar orðræðu að skilin á milli innflutningsverslunar og smásöluverslunar eru smám saman að verða minni. Og ég vil t.d. beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh., sem talar hér í umboði fjmrh.: Hver á að fylgjast með því að umboðsmenn selji eingöngu til veitingahúsa en ekki til almennra neytenda? Þetta er ein þeirra spurninga sem menn hafa sett hér fram í þessari umræðu.