Áfengislög

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 15:44:27 (180)


[15:44]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er á dagskrá er hluti af þeim málapakka sem hefur verið til umræðu að undirlagi hæstv. fjmrh. núna undanfarna daga. Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að breyta áfengislögunum til samræmis við þau frumvörp sem flutt hafa verið og mjög hafa verið rædd síðustu daga. Í sjálfu sér er ástæðulaust að bæta mjög miklu við þessa umræðu en það eru þó örfá atriði sem nauðsynlegt er að ræða sérstaklega við hæstv. dómsmrh. í þessu sambandi, sem hann hefur forræði á en hæstv. fjmrh. ekki og það lýtur auðvitað að löggæslunni og eftirliti með þessum málum.
    Það er gert ráð fyrr því eins og kunnugt er í þessum frumvörpum að það verði ekki einasta Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem geti haft með þessi mál að gera og fengið áfengi til sölu beint frá söluaðilum, heldur geti veitingahús gegnt þessu hlutverki líka og þar er um að ræða byltingarkennda breytingu frá því sem verið hefur. Það þýðir að sala á áfengi færist í hendur margfalt fleiri aðila en áður hafa getað stundað þessa starfsemi með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Það sem gerist er í raun og veru það að verkefninu sem áður var í höndum ÁTVR eingöngu er nú dreift á hundruð annarra aðila og þar á ég sérstaklega við veitingahúsin. Ég vil í tilefni af þessu spyrja hæstv. dómsmrh.: Hversu margir eru þeir vínveitinga- eða vínsöluaðilar, þau veitingahús sem hér er um að ræða, sem mundu fá leyfi samkvæmt frv. þessu til þess að selja áfengi eftir að hafa tekið við því frá söluaðilum? Hversu margir eru þessir aðilar? Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir menn að gera sér grein fyrir því hér hversu margir þeir eru. Ég kann út af fyrir sig ekki þær tölur en mér er ljóst að t.d. í Reykjavík hefur fjölgun þessara aðila orðið gífurlega mikil á undanförnum árum. Gífurlega mikil og þar er um margföldun að ræða.
    Í framhaldi af þessu er þá önnur spurning sem er þessi: Hvað má ætla að löggæslan í landinu þurfi

að taka á sig mikla viðbótarvinnu við það sem nú er um að ræða ef þessi skipan verður tekin upp? Við þekkjum það sem höfum farið yfir fjárhagsmálefni lögreglunnar á undanförnum árum að þar hefur verið um talsverðan niðurskurð að ræða. Þó er það þannig að þegar skoðuð eru framlög til löggæslumála hér á undanförnum árum, t.d. á 10 ára bili eða svo, þá er ekki hægt að tala um að þar sé um að ræða gífurlegan niðurskurð en þó nokkurn í rauninni. Ég hygg að hann telji nokkur prósent í raunfjárhag. Núna fyrir fáeinum mánuðum fór ég fram á það við Ríkisendurskoðun að hún reiknaði það út fyrir mig hverju næmu framlög til löggæslu á Íslandi á föstu verðlagi á undanförnum árum og það kom í ljós að það var um nokkurn niðurskurð að ræða. Ég hygg að talan nemi í sparnaði um 100 millj. kr., úr u.þ.b. 1.700 millj. í u.þ.b. 1.600 millj., ef ég man rétt, heildarútgjöld til löggæslu í landinu og þá er ég að tala um löggæsluembættin öll eins og þau leggja sig.
    Það er alveg greinilegt að á síðustu árum þrenginga hjá ríkissjóði þá hafa menn gripið til þess að skera mjög víða niður og hefur það verið þannig að þar hafa margir og í rauninni allir gengið nauðugir til verka og nauðugir til leiks. Engu að síður er það svo að ég tel að það sé einn málaflokkur sem hafi átt hér ótrúlega fáa talsmenn í þessari virðulegu stofnun. Það hefur verið þannig t.d. í sambandi við menntamál að þar hafa menn ekki dregið af sér að reyna að halda utan um það litla sem varið er til menntamála og hið sama má segja um heilbrigðismál, félagsmál, málefni fatlaðra, svo dæmi séu tekin. Hins vegar er það þannig að þegar hefur komið að löggæslumálum þá hafa verið ótrúlega fáir talsmenn þeirra hér í þessari stofnun og menn hafa í raun og veru litið á löggæsluna eins og framlengdan arm gamalla embætta en ekki gert sér grein fyrir því að löggæslan núorðið er hluti af því óhjákvæmilega þjóðfélagsumhverfi sem við hljótum að búa við og viljum búa við. Þess vegna hefur það verið þannig að til viðbótar við þær 100 millj. sem hafa verið skornar niður af löggæslunni, ef maður lítur yfir 10 ára tímabil eða svo í raunstærðum, þá hafa verkefni löggæslunnar aukist gífurlega og það er greinilegt að þeir menn sem með þessi mál hafa að gera telja að verkefnin séu yfirþyrmandi og löggæslan ráði í raun og veru mjög lítið við þau eins og sakir standa.
    Það var athyglisvert að nokkrum vikum fyrir kosningar þá efndi Landssamband lögreglumanna til fundar með fulltrúum allra framboðsaðila, eins og það er kallað á þessari nútímaíslensku sem er tíðkuð. Þetta er yfirleitt kallað flokkar en framboðsaðilar finnst mönnum betra að hafa það í seinni tíð. Lögreglan spurði þessa ,,framboðsaðila``: Hvaða stefnu hafið þið í málum löggæslunnar?
    Það kom í ljós að menn höfðu enga stefnu. Menn reyndu að vísu, sá sem var talsmaður fyrir Sjálfstfl., að lesa upp úr afrekaskrám hæstv. dómsmrh., þ.e. um þau mál sem hann hefur lagt hér fyrir þingið, en að um væri að ræða flokkslega umfjöllun af hálfu stjórnmálaflokkanna í málefnum löggæslunnar, það var ekki til. Og það hefur ekki verið þannig og menn eiga ekkert að vera að reyna að sýnast í þeim efnum. Flokkarnir hafa í raun og veru ekki sinnt þessum hlutum sem skyldi. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að draga þetta mál hér fram, hæstv. forseti, vegna þess að hér er verið að gera ráð fyrir stórkostlega auknum nýjum verkefnum löggæslunnar á Íslandi. Stórkostlega auknum. Á sama tíma og fjármunir til hennar hafa verið skornir niður, á sama tíma og verkefni hennar hafa verið að aukast og á sama tíma og kröfur til löggæslunnar eru að aukast stórkostlega. Það þekkjum við t.d. sem búum í þessu kjördæmi, þessu byggðarlagi Reykjavík, þar sem öryggisleysi almennings andspænis alls konar vá af margvíslegum toga fer vaxandi og við þessar aðstæður kallar almenningur á stuðning löggæslunnar með einhverjum hætti. Þessi mál hafa t.d. verið rædd í þessari virðulegu stofnun þar sem við í fyrirspurnatíma á síðasta þingi skiptumst á skoðunum um það, ég og hæstv. dómsmrh., hvort eðlilegt væri að sveitarfélögin ættu með einhverjum hætti aðild að yfirstjórn lögreglunnar á takmörkuðum svæðum þegar um væri að ræða tiltekin verkefni og ákveðin vandamál sem tengdust svæðunum. Ég tel að það sé út af fyrir sig ekki við hæfi að lögreglan sé undir stjórn margra aðila og var sammála dómsmrn. um það, en ég skil samt þær óskir sem hafa komið fram, m.a. hér í Reykjavík, frá einstökum byggðarlögum, hverfum, þar sem fólk hefur verið að óska eftir því að fá nánari samvinnu og samband við lögregluna en verið hefur. Ég bendi á það t.d. að borgarfulltrúar Sjálfstfl. í Reykjavík hafa flutt um það tillögur að það verði komið á sérstöku samstarfi hverfanna og lögreglunnar.
    En hér er sem sagt verið að stórauka verkefni þessara yfirhlöðnu starfsmanna ríkisins og það er algjörlega nauðsynlegt að spyrja hæstv. dómsmrh. hvernig hann sér fram úr því. Verður það á kostnað annarrar þjónustu? Því ef menn eiga að sinna þessu verki með eðlilegum hætti þá gera menn ekki hlutina tvisvar með sama vinnuaflinu og það þýðir það að menn mundu vanrækja eitthvað annað. Og hvað verður vanrækt? Satt að segja held ég að staðan sé þannig að þegar fólk heyrir núorðið fréttir um að það eigi að fara að skera niður hjá löggæslunni þá er almenningur, a.m.k. hér á þessu þéttbýlissvæði, skelfingu lostinn. Staðan er í raun og veru orðin þannig að því er varðar öryggistilfinningu almennings hér í þessum byggðarlögum. Þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. dómsmrh. um þetta sérstaklega: Í fyrsta lagi hvað staðirnir eru margir, vínveitingastaðirnir, sem hérna kæmu til með að stunda beina sölu á áfengi á ómerktum áfengisflöskum, jafnvel á afsláttarkjörum til þess að koma brennivíninu út með greiðari hætti en ella hefði verið? Í öðru lagi vil ég spyrja um löggæsluna, aukinn löggæslukostnað. Það er alveg óhjákvæmilegt að fá um það upplýsingar. Í þriðja lagi vil ég svo víkja að því ákvæði sem kemur fram í 3. gr. frv. en það lýtur sérstaklega að heimild til þess að gera upptæk tæki, eimingartæki, og til þess að gera ódrykkjarhæft áfengi sem drykkjarhæft var, eins og það er orðað í hinum opinberu textum.

    Hér er verið að taka lítillega á því vandamáli sem við höfum kynnst að undanförnu og sem samtökin Stöðvum unglingadrykkju hafa fjallað mikið um í sínum ályktunum og áskorunum. Það er þetta ógnarlega flóð af landabruggi sem hefur birst hér á undanförnum missirum. Ég hefði gjarnan viljað átta mig aðeins betur á því að hve miklu leyti sú breyting, sem hér er gert ráð fyrir að verði, í raun og veru dregur úr þeirri hættu sem þarna er um að ræða.
    Ég heyrði það sem hæstv. ráðherra sagði um þetta mál og ég hef lesið það sem stendur í grg. frv. en ég hefði gjarnan viljað biðja hann um að fara aðeins ítarlegri orðum um þetta vegna þess að ég tel að þetta sé sjálfstætt vandamál og úr því að verið er að opna áfengislögin þá eigi að taka á landaframleiðslumálum alveg sérstaklega. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að um það verði dálítil umræða því hún er auðvitað partur af þessum vanda sem lýtur bæði að hinum almennu verkefnum löggæslunnar og líka hinum almennu vandamálum sem fylgja því að búa í bæ, þéttbýli, og hinum almennu vandamálum sem blasa við fjölskyldunum og foreldrum unglinga hér í okkar landi.
    Auðvitað er það svo, hæstv. forseti, að Alþingi Íslendinga hefur vanrækt margt. Eitt af því sem það hefur vanrækt er að móta það sem heitir opinber stefna í áfengismálum. Hafi menn einhvers staðar talið við hæfi að nota orðið hræsni um það sem lýtur að þessari virðulegu stofnun þá dettur manni það í hug í tengslum við þessi mál. Við höfðum hér gríðarlega miklar umræður um áfengismál og áfengisvanda í tengslum við bjórinn á sínum tíma, þegar hann var leyfður. Það er ekki nokkur vafi á því að sú umræða hafði jákvæð áhrif. Hún varð til þess að það var farið í að efla hér kynningar- og forvarnastarf. Það var varið sérstökum fjármunum til fræðslustarfs út af bjórnum, verulegum fjármunum, og það sem meira er og skiptir mestu máli í þessu sambandi, það var tekin um það ákvörðun að verðlagning á bjórnum yrði í raun og veru ákveðin með hliðsjón af heilbrigðisþættinum. Það var tekin um það ákvörðun hér í þessari stofnun að verðlagning á bjórnum yrði í raun og veru byggð á heilbrigðisþættinum, forvarnaþættinum, ekki síst til að byrja með, vegna þess að menn óttuðust að til að byrja með gæti hérna orðið flóð og vandi sem við réðum ekkert við. Ég held að það sé alveg hægt að slá því föstu, m.a. fyrir okkur sem greiddum atkvæði gegn bjórnum á sínum tíma eins og ég gerði og fleiri hér, nærri helmingur þingsins, að í rauninni hafa þessar áherslur okkar haft áhrif. Bæði vegna þess að menn fóru í stóreflda kynningarstarfsemi og líka vegna þess að verðlagningin á þessari vöru var tiltölulega há. Þannig að þegar maður lítur yfir tölur um alkóhólneyslu á íbúa á Íslandi í samanburði við t.d. önnur Norðurlönd þá kemur í ljós að um það leyti sem bjórinn var tekinn upp þá nær þetta ákveðnu hámarki en hefur heldur minnkað síðan og er núna svipað á mann og það var áður en bjórinn var leyfður. Það er mjög athyglisvert. Svipað á mann og áður en bjórinn var leyfður. En til viðbótar þessu kemur auðvitað sú hugsanlega skýring að kaupgeta almennings hefur minnkað mjög mikið á sama tíma sem aftur getur skýrt hluta af þeim mismun sem þarna er um að ræða vegna þess að minnkandi kaupgeta hefur alltaf á undanförnum árum komið fram í minnkandi kaupum á áfengi.
    Engu að síður held ég að það sé athyglisvert að horfa á þessa sögu. Eitt af því sem var rætt þegar bjórinn var innleiddur á sínum tíma var það að það ætti að móta hér og af ríkisstjórninni opinbera stefnu í áfengismálum --- opinbera stefnu. Það var starfandi nefnd í þeim málum að frumkvæði heilbrrn. Hún skilaði áliti til þáv. forsrh., Steingríms Hermannssonar, ítarlegu áliti, tillögum um opinbera stefnumótun í áfengismálum. Satt best að segja er þessi skýrsla eins og fleiri á sínum stað uppi í Stjórnarráði. Til hennar hefur ekkert síðan spurst. Það er auðvitað dálítið harkalegt að það skuli vera gerðar hér tillögur um byltingarkenndar breytingar á áfengissölu, áfengismeðferð og áfengisstefnu í landinu án þess að hlutirnir séu settir í heildarsamhengi. Nú hef ég út af fyrir sig enga oftrú á því að einhverjar almennt orðaðar ákvarðanir á Alþingi ráði úrslitum um hlutina til eða frá, ég segi það alveg eins og er. Hins vegar finnst mér alla vega skynsamlegra að Alþingi leitist við af fremsta megni, eins og menn segja stundum, að vanda sig við löggjöfina og fara yfir hugsanlegar afleiðingar þeirra ákvarðana sem menn eru að taka. Það eru menn því miður ekki að gera sem skyldi. Þótt auðvitað hafi einstakir hv. þingmenn lagt margt gott til málanna þá finnst mér að þessir hlutir séu ekki settir í það beina almenna þjóðfélagslega samhengi sem þarf að gera og þess vegna kvaddi ég mér hér hljóðs, hæstv. forseti.
    Aðeins að lokum. Í greinargerð fjárlagaskrifstofu fjmrn. með frv. þessu segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Ekki er gert ráð fyrir að frv. þetta hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð. Áætlað er að beinar tekjur ríkissjóðs lækki um ca. 50 millj. kr. Á móti þeirri lækkun ættu að koma nokkuð auknar tekjur á framleiðslu- og innflutningsstarfsemi einkaaðila. Í heild er því gert ráð fyrir að breyting sú sem lögð er fram í frv. þessu hafi ekki teljanleg áhrif á heildartekjur ríkissjóðs.`` Ég verð að játa það, og það er reyndar ekki alveg í fyrsta sinn, að ég skil ekki þessa fjárlagaskrifstofu fjmrn. Það er því spurning hvort hæstv. dómsmrh. vildi vera svo vinsamlegur að segja mér og öðrum þingmönnum frá því hvernig hann skildi fjárlagaskrifstofu fjmrn.