Aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 16:45:54 (190)


[16:45]
     Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Hv. þingmenn Kvennalistans hafa lagt fram till. til þál. um aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna. Þetta er tillaga í tólf liðum sem taka til margra þátta þjóðlífsins sem snerta jafnrétti karla og kvenna. Ég hlýt sem ráðherra jafnréttismála að fagna þessum áhuga þingmanna Kvennalistans og mér er það mikið kappsmál að á þessu kjörtímabili verði náð marktækum árangri í að koma á jafnrétti með konum og körlum á öllum sviðum þjóðlífsins.
    Í umræðunni er að mínu mati nauðsynlegt að minna á það að á ýmsum sviðum hefur náðst nokkur árangur. Það nægir að benda á að hlutfall kvenna í þeim hópum sem útskrifast frá æðstu menntastofnunum landsins er síhækkandi. Hlutur kvenna hér á Alþingi, í sveitarstjórnum og í stjórnsýslunni hefur aukist og á almennum vinnumarkaði er þrátt fyrir allt, guði sé lof, sífellt algengara að konur séu í forustu fyrir atvinnufyrirtækjum. Þetta eru sjálfsagt allt merki um það að okkur miðar áfram, þó það verði að viðurkenna að það miði of hægt á mörgum sviðum. Sérstaklega er það sláandi með launamun karla og kvenna. Það eru bráðum 40 ár frá því að hér á Alþingi var samþykkt till. til þál. um heimild fyrir ríkisstjórnina að fullgilda alþjóðasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 100 um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf. Í 2. gr. samþykktarinnar er kveðið á um það að aðildarríki skuli stuðla að því að tryggja að reglan um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf taki til alls starfsfólks. Þetta orðalag er tekið upp í lög sem hafa gilt um jafnrétti kvenna og karla, t.d. lögin frá 1976, 1985 og 1991.
    Það er að sjálfsögðu mjög erfitt að sætta sig við það að eftir bráðum 40 ár skuli árangurinn vera jafnrýr og skýrslan um rannsókn sem Félagsvísindastofnun vann fyrir félmrn. og skrifstofu jafnréttismála um launamyndun og kynbundinn launamun leiðir í ljós.
    Þessi skýrsla kom til umfjöllunar á Alþingi í febrúar sl. Það verður að leggja áherslu á það að niðurstöður skýrslunnar byggja á spurningaskrá og viðtölum sem dreift var til takmarkaðs fjölda einstaklinga. Dreift var 1.250 spurningaskrám og svör bárust frá 685. Þessi hópur var ekki valinn með tilviljunaraðferð og þar af leiðandi er kannski ekki hægt að segja að þessi könnun sé hávísindaleg þannig að það getur verið varhugavert að alhæfa út frá niðurstöðum könnunarinnar. En niðurstöður skýrslunnar gefa sömu vísbendingu og aðrar hliðstæðar rannsóknir um launamun kynjanna og það liggur alveg ljóst fyrir að þarna

er um umtalsverðan launamun að ræða. En spurningin er hvernig á að ná árangri í að laga þetta atriði.
    Ég tel mjög mikilvægt að ná víðtækri samstöðu um það viðhorf í þjóðfélaginu að launamunur karla og kvenna sé óásættanlegur. Og af umræðum í þjóðfélaginu, sem stofnuðust um skýrslu Félagsvísindastofnunar, má ráða að meiri skilningur ríki í þjóðfélaginu í þessum málum en áður. Hins vegar er ég einnig þeirrar skoðunar að flutningur þessarar þáltill. sé ekki fallinn til að skapa slíka samstöðu og það vil ég skýra með nokkrum orðum.
    Hv. þm. Kvennalistans sem og öðrum hv. þm. er ljóst að í gildi er þáltill. um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Þessi þál. var samþykkt árið 1993 og gildir til ársins 1997. Samkvæmt 17 gr. laga nr. 28 frá 1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, skal endurskoða þessa áætlun á tveggja ára fresti og í tengslum við það leggur félmrh. fram á Alþingi skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála. Hinn 7. maí sl. voru einmitt liðin tvö ár frá samþykkt þáltill.
    Í samræmi við ákvæði jafnréttislaganna hef ég falið skrifstofu jafnréttismála að undirbúa endurskoðun gildandi framkvæmdaáætlunar á sviði jafnréttismála. Skrifstofan hefur nýlega sent öllum ráðherrum og ráðuneytisstjórum bréf þar sem óskað er eftir yfirliti um stöðu verkefna í framkvæmdaáætluninni sem lokið er eða verið er að hrinda í framkvæmd. Einnig er óskað eftir upplýsingum um áætlanir um verkefni sem ekki er byrjað á. Og enn fremur er lýst eftir tillögum að nýjum verkefnum. Loks er lýst eftir mati á árangri og upplýsingum um kostnað við einstök verkefni. Skýrsla um niðurstöður á mati á gildandi framkvæmdaáætlun verður lögð fyrir Alþingi næsta haust og samhliða geri ég ráð fyrir að endurskoðuð þáltill. um framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna verði lögð fram til umræðu og afgreiðslu á Alþingi.
    Það er af þessari ástæðu sem mér finnst þessi tillöguflutningur ekki alsendis tímabær á vorþinginu. Þar gildir raunar það sama um aðra tillögu sem hér er í farvatninu. Ég held að flestir hljóti að viðurkenna að skynsamlegasta verklagið sé að gera úttekt á hvernig tekist hefur að hrinda í framkvæmd gildandi framkvæmdaáætlun og í framhaldi af því að setja fram tillögur um úrbætur á þeim þáttum áætlunarinnar sem ekki hafa tekist sem skyldi.
    Ég vil nota tækifærið til að fara örfáum orðum um það sem stjórnvöld eru að vinna á sviði jafnréttismála um þessar mundir. Það er rétt að minna á að það eru einungis fjórar vikur síðan ríkisstjórnin tók við völdum. Ég vil fyrst geta þess að nýtt Jafnréttisráð verður vonandi skipað á morgun. Ég hef beðið óþreyjufullur eftir tilnefningu um fulltrúa frá BSRB í allmarga daga. En tilnefningin er nú komin í félmrn. að því er mér er tjáð. Umboð vinnuhóps sem falið var að afla upplýsinga um starfsmat og setja fram tillögur um það hvernig beita megi slíku mati til að leiðrétta kjör kvenna hefur verið endurnýjað. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi alls ekki . . .  (Forseti hringir.) Herra forseti, ég er að ljúka máli mínu. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi alls ekki verið rétt staðið að skipun þessa vinnuhóps og samtök atvinnurekenda áttu þar ekki fulltrúa. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur tekið að sér að veita þessum vinnuhópi forustu og ég vænti hins besta af starfi hans.
    Ég tel sem sagt að þessi tillaga þarfnist ekki afgreiðslu á þessu þingi. Það er verið að vinna að flestum þáttum málsins í félmrn. en þetta þskj. getur hins vegar verið gott innlegg í þá umræðu.