Aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 17:30:23 (195)


[17:30]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vildi leiðrétta smámisskilning sem fram kom í máli hv. 19. þm. Reykv. í ræðu hennar rétt í þessu. Það voru ekki mín orð að verkalýðshreyfingin væri alveg saklaus í þessum málum. Það sem ég var að tala um var að ég teldi vitlaust að kenna henni sem slíkri um það hvernig þessi mál standa. Það var það eina sem ég vildi koma á framfæri.
    Ég vil einnig koma því á framfæri úr því að ég hef hér tækifæri til þess og misnota aðstöðu mína og bið forseta afsökunar á því að það hefði ekki verið hægt fyrir Kvennalistann jafnvel þó að honum hefði dottið það í hug að biðja um tvöföldun á tíma af því að hér er um að ræða þáltill. þannig að það er mál sem við þurfum að taka til meðferðar þegar við breytum þingsköpunum með haustinu, þeir sem í það fara.
    En ég vildi sem sagt koma þessu á framfæri í sambandi við verkalýðshreyfinguna að ég tel að málið liggi þannig að hún hafi oft legið undir ámælum að ósekju.