Ástand á geðdeildum og sumarlokun sjúkrahúsa

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 18:01:05 (199)

[18:01]
     Ásta R. Jóhannesdóttir :
    Herra forseti. Um helgina var vakin athygli á því í Morgunblaðinu að lokanir á geðdeildum Landspítalans í sumar sem hefjast 1. júní nk. vegna sparnaðar muni leiða til ófremdarástands. Þetta er álit yfirlæknis geðdeildarinnar. Loka þarf fjórum af átta almennum geðdeildum. Lokanirnar verða til þess að veikari sjúklingar koma inn og þeir eru útskrifaðir fyrr en æskilegt væri. Eftirmeðferðardeildum verður einnig lokað svo nauðsynleg framhaldsmeðferð fæst ekki sem getur haft alvarlegar afleiðingar. Í blaðinu er lýst vanda geðsjúkra og aðstandenda þeirra nú. Vegna eðlis sjúkdómsins og fordóma sem enn ríkja í garð hans er hætt við að hvorki sjúklingarnir né aðstendendur láti í sér heyra.
    Vegna þeirra og annarra sem lokanirnar bitna á er nauðsynlegt að vekja athygli á þessu ástandi hér.

Það er nú komið að þeim því miður árvissa tíma þegar sjúkir, aldraðir og fatlaðir og aðstendendur þeirra fá hnút í magann og velta fyrir sér hvernig þeim muni reiða af. Hvíldarinnlögnum mun fækka, þeir sem vinna umönnunarstörfin heima fá ekki sína hvíld, biðlistar sjúkrahúsanna lengjast og álag á starfsfólk eykst. Það er enginn öfundsverður við þessar aðstæður, hvorki þeir sem þurfa að taka ákvarðanir um lokanir né þeir sem þær bitna svo óþyrmilega á. Er ekki kominn tími til að endurskoða þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í rekstri heilbrigðisstofnana okkar? Það hlýtur að vera hagkvæmara að halda stóru sjúkrahúsunum gangandi hér í Reykjavík allt árið um kring með fullum afköstum. Við verðum að forgangsraða verkefnum, hætta að fjárfesta í steypu og setja féð frekar í að halda þessum sjúkrahúsum í fullum rekstri. Það eru rangar áherslur að dreifa fjármagni eins og nú er gert.
    Í skýrslu starfshóps um málefni sjúkrahúsa frá 1993, sem fyrrv. heilbrrh. skipaði, kemur fram að næg hjúkrunarrúm séu til í landinu. Þau séu of mörg úti á landi en of fá á höfuðborgarsvæðinu þar sem 60% þjóðarinnar býr. Þar segir einnig að kostnaðurinn við litlu sjúkrahúsin úti á landi sé of mikill miðað við þjónustuna sem þau veita. Í skýrslunni er áætlað að 600--800 millj. séu vannýttar í þessu sambandi. Þarf ekki að skoða þessa skýrslu nánar? Stjórnendur sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu hafa haldið því fram að fé til sjúkrahússrekstrar sé ranglega skipt og það sé ekki í samræmi við þá þjónustu sem þau veita.
    Landlæknisembættið er nú farið að fylgjast betur með biðlistum en áður til að meta áhrif sumarlokana. Samkvæmt upplýsingum frá embættinu kemur fram að biðtími eftir aðgerðum sé yfirleitt að lengjast. Frá miðju ári 1994 til 15. jan. sl. höfðu biðlistar lengst að meðaltali um 10%. Þá biðu um 2.000 manns eftir aðgerðum á Borgarspítalanum. Sparnaðurinn hjá Ríkisspítölunum nú er álíka og árið 1992 sem er allmiklu meiri en tvö síðustu ár. Á Borgarspítalanum er sparnaðurinn svipaður og áður. En þar hefur verið hagrætt og sparað mjög mikið undanfarið. Starfsfólki hefur fækkað um 40 stöðugildi svo nú er færra fólk að veita sömu þjónustu. Langvarandi álag á starfsfólk er mjög mikið og hafa menn áhyggjur af því hvort það takist að vera réttu megin við öryggismörk gagnvart sjúklingum. Það er óþolandi að slíkt ástand sé viðvarandi.
    Ég veit að hæstv. heilbrrh. hefur haft lítið tóm til að fara í þessi mál á þeim stutta tíma sem hún hefur verið í embætti en leita þó svara við eftirfarandi spurningum:
    Verður gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir það ófremdarástand sem virðist ætla að skapast á sjúkrahúsum vegna sumarlokunar deilda?
    Verður komið til móts við þá sem annast sína nánustu heima vegna þessa ástands?
    Er hæstv. ráðherra tilbúinn að endurskoða sumarlokanir á t.d. geðdeildum, endurhæfingar- og eftirmeðferðardeildum í samræmi við þær áherslur sem hæstv. ráðherra hefur lagt á forvarnir?
    Er hæstv. ráðherra tilbúinn til að endurskoða sérstaklega fjárveitingar til sjúkrahúsanna hér í Reykjavík í samanburði við sjúkrahúsin úti á landi miðað við þá þjónustu sem þau veita?
    Hvert er mat hæstv. ráðherra á því hvaða áhrif sumarlokanir undanfarin ár og annar sparnaður á sjúkrahúsunum hafi haft á öryggi og velferð sjúklinga?
    Telur hæstv. ráðherra að um raunsparnað sé að ræða við lokun á deildum yfir sumarmánuðina þegar horft er til afleiðingar þeirra bæði félagslegra og heilsufarslegra?
    Herra forseti. Þingflokkur Þjóðvaka hefur í dag sent bréf til stjórnar stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík og óskað eftir faglegu mati þeirra á áhrifum sumarlokana, raunsparnaði og öryggi sjúklinga og beðið um að það liggi fyrir áður en þing fer heim nú í vor.