Ástand á geðdeildum og sumarlokun sjúkrahúsa

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 18:19:05 (204)


[18:19]
     Ögmundur Jónasson :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því þakka hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur, 18. þm. Reykv., fyrir það frumkvæði að taka þetta mál hér á dagskrá. Ég bind einnig vonir við þau fyrirheit sem mér fannst liggja í svari hæstv. heilbrrh. um að þessi ráðstöfun yrði endurskoðuð í samráði við fjmrn. Sjálfum finnst mér ekki annað koma til greina en þessar ákvarðanir um lokun á geðdeildum Landspítalans verði teknar til baka. Úr ræðustóli hér var vitnað í orð Lárusar Helgasonar, yfirlæknis á Landspítalanum, og ég vil vitna enn frekar í þetta viðtal sem birtist 20. maí við hann í Morgunblaðinu. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Við teljum þetta gersamlega óábyrgar aðgerðir og þetta leiðir aðeins til þess að við verðum að taka inn mun veikara fólk. Undir venjulegum kringumstæðum þýðir það lengri dvöl sjúklinga en nú neyðumst við hins vegar til þess að útskrifa þá fyrr. Annað sem undirstrikar ábyrgðarleysi þessarar gjörðar er að eftirmeðferðardeildir verða líka lokaðar.``
    Síðar í viðtalinu segir hann: ,,Við sjáum því ekki fram á annað en einhverja vitleysu sem svo auðvitað mæðir fyrst og fremst á sjúklingum og aðstandendum þeirra. Það er jafnframt líklegt, þótt ég vilji ekkert fullyrða um það, að þetta muni leiða til aukinna sjálfsvíga því að þegar sjúklingar koma til okkar í örvæntingu, þá verðum við oft að segja þeim að ekkert pláss sé fyrir þá. Það má alltaf deila um hvar eigi að loka í heilbrigðiskerfinu, en þessi gjörningur verður gersamlega á ábyrgð stjórnmálamanna því þetta er þeirra ákvörðun.``

    Þetta eru stór orð og þetta eru þung orð en ég hef ekki ástæðu til að efast um sannleiksgildi þeirra og að mínu mati er læknirinn að sýna ábyrgð í starfi með því að segja stjórnmálamönnum hverjar séu líklegar afleiðingar gerða þeirra. Og nú er komið að stjórnmálamönnunum að íhuga með hvaða hætti þeir ætla að axla sína ábyrgð. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að mér finnst ekki annað koma til greina í ljósi þessara ummæla og þeirra upplýsinga sem liggja fyrir en að falla frá þessum ákvörðunum og ég vil láta þess getið að sem fulltrúi Alþb. og óháðra í heilbrn. mun ég beita mér fyrir því að þessi mál verði tekin þar til umfjöllunar.