Ástand á geðdeildum og sumarlokun sjúkrahúsa

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 18:24:17 (206)


[18:24]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil mótmæla orðum síðasta ræðumanns að umfjöllun um þetta mál sé ekki byggð á nægilega traustum grunni. Ein helsta heimildin sem hér er vitnað til er Morgunblaðið og hver er svo heimildarmaður Morgunblaðsins? Það er yfirlæknir á Landspítalanum sem ber faglega ábyrgð á meðferð þessara sjúklinga sem þarna eiga í hlut. Er hv. síðasti ræðumaður að segja að þetta séu ómarktækar heimildir, Morgunblaðið annars vegar og yfirlæknir á viðkomandi sviði á Landspítalanum hins vegar? ( Gripið fram í: Mikil er trú þín.) Ég held að þessar heimildir nægi alveg fullkomlega til að ræða þetta mál og vara við þeirri óhæfu sem hér á að fara að gera.
    Staðreyndin er sú að maður hefur bundið við það nokkrar vonir, hæstv. forseti, að menn færu nú að endurskoða í heild sinni þessar svokölluðu sparnaðaraðgerðir sem eiga að felast í tímabundinni lokun starfsemi heilbrigðisstofnana á sumrin vegna þess að reynslan af því er afar tvíbent og það kemur í ljós að oft er fyrst og fremst verið að geyma vandamálin og safna þeim upp og hlaða þeim upp, lengja biðlistana og fresta óumflýjanlegum aðgerðum þannig að þegar upp er staðið er enginn sparnaður á ferðinni. Þetta hefur sýnt sig í mörgum tilvikum En auðvitað tekur steininn úr þegar mönnum dettur í hug að beita þessum aðgerðum gagnvart sjúkdómum af því tagi sem hér eiga í hlut. Það er alger óhæfa.
    Hæstv. síðasti heilbrrh. varð frægur að endemum þegar hann lokaði fæðingardeildum og sendi með þriggja mánaða fyrirvara út þær orðsendingar að konur ættu að bíða með að fæða sín börn, þá gengnar væntanlega 6 mánuði á leið. Þetta þótti auðvitað fyndið, en sýndi í hnotskurn hvers konar endileysa þessar sparnaðaraðgerðir eru ef dæmið stendur svona. En um geðsjúkdómana gegnir allt öðru máli. Það er alger óhæfa ef t.d. á að fara að loka deildum sem sinna eftirmeðferð geðsjúkra. Það hljóta allir að sjá. Svo fátæk erum við ekki orðin á Íslandi að við þurfum að henda slíku fólki út af heilbrigðisstofnunum. Og ég skora á hæstv. núv. heilbrrh. að afstýra því að við tökum risaskref aftur á bak í meðferð þessara mála á Íslandi, aftur til þeirra tíma sem menn skammast sín auðvitað fyrir eins og búið var að geðsjúkum víða um land á fyrstu áratugum þessarar aldar. Hæstv. heilbrrh. á að taka um þetta faglega ákvörðun og tilkynna hana fjmrh. Þetta er ekki mál sem menn ákveða uppi í fjmrn. heldur í fagráðuneytinu á faglegum grundvelli. Svona er ekki farið með geðsjúka á Íslandi.