Ástand á geðdeildum og sumarlokun sjúkrahúsa

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 18:26:55 (207)


[18:26]

     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Það er með hálfum huga sem ég blanda mér í þessar umræður vegna þess að ég vil ekki verða til þess tvo daga í röð að færa úr skorðum hið fíngerða taugakerfi hæstv. heilbrrh. En auðvitað gefa þær fréttir sem hér hefur verið vísað til tilefni til þess að ræða þetta nokkuð.
    Í hinum virta fréttamiðli, Morgunblaðinu, kemur það fram að yfirlæknir Landspítalans telur þessa lokun gjörsamlega óábyrga og telur jafnframt að það hafi aldrei þurft að skerða starfsemi geðdeildanna í líkingu við þetta. Nú er það svo, virðulegi forseti, að við þessu hefur hæstv. heilbrrh. eftirfarandi svör sem eru eiginlega þríþætt:
    Í fyrsta lagi hún hefur áhyggjur af málinu. Í öðru lagi er hún reiðubúin til að skoða það og í þriðja lagi er hún líka tilbúin til að taka málið upp við hæstv. fjmrh.
    Það er svo, herra forseti, að Alþfl. stóð fyrir erfiðum aðgerðum vegna nauðsynjar á aðhaldi í ríkisfjármálum á síðasta kjörtímabili. Þá var það einn flokkur sem gekk fram fyrir skjöldu og fór logandi eldi gegn þáv. hæstv. heilbrrh., Sighvati Björgvinssyni, og taldi honum flest til foráttu í þessu málum. Menn verða að standa ábyrgir sinna eigin orða og menn verða að sýna samkvæmni í orðum og gerðum og sú skylda hvílir líka á hæstv. núv. heilbrrh. Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að undir þeirri ábyrgð virðist hæstv. heilbrrh. einfaldlega ekki standa. Eins og hefur komið fram áður af hennar hálfu í umræðu þá vísar hún til hnúta sem Alþfl. hnýtti á stjórnartíð sinni. Það er svo, herra forseti, og ég undirstrika það, að núverandi hæstv. heilbrrh. heitir Ingibjörg Pálmadóttir en ekki Sighvatur Björgvinsson. Ef hæstv. ráðherra ætlar að fylgja sínum eigin orðum eftir með ábyrgum athöfnum þá getur hún ekki bara haft áhyggjur og verið tilbúin til að ræða málið, hún þarf að taka málið upp innan ríkisstjórnarinnar til þess að sýna fram á það að hún hafi fullan vilja til að fylgja eftir sinni eigin stefnu vegna þess að hún var á móti hinni stefnunni.
    Þess vegna vil ég spyrja, virðulegi forseti: Hefur hæstv. heilbrrh. tekið málið upp í ríkisstjórn og beðið um auknar fjárveitingar?
    Aðeins að lokum, herra forseti, vegna þess að hér hefur verið vísað í ummæli yfirlæknis um það að ástandið kunni að leiða til aukinna sjálfsvíga þá vil ég segja að þau ummæli læknisins tel ég ósæmileg, svo ekki sé meira sagt. Ég hef alls enga trú á því að yfirmenn Landspítalans, hvað þá sjálfur ráðherra, muni með nokkru móti taka þátt í aðgerðum sem leiða til þess. Ég kannast við svona aðferðir frá því Alþfl. var í ríkisstjórn.