Ástand á geðdeildum og sumarlokun sjúkrahúsa

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 18:32:35 (209)


[18:32]
     Ásta R. Jóhannesdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans við þeim spurningum sem fram komu í máli mínu og hv. þm. sem þátt tóku í umræðunni. Það er gott að ráðherrann er tilbúin að endurskoða ákvarðanir um sparnað ef það kemur í ljós að um ófremdarástand verður að ræða. Það er einnig gott að það verður hægt að mæta öllum þörfum um hvíldarinnlagnir. Ég fagna því.
    Varðandi ummæli hv. þm. Sturlu Böðvarssonar þá vil ég minna á það sem kom fram í máli mínu

áðan að þingflokkur Þjóðvaka hefur í dag kallað eftir upplýsingum og áliti um það ástand sem skapast á stóru sjúkrahúsunum frá stjórnum þeirra. Þegar þær hafa borist okkur, sem vonandi verður áður en þinginu lýkur í vor, þá mun málið verða tekið fyrir og ég mun óska eftir að það verði tekið til umfjöllunar í hv. heilbr.- og trmn. Ég vil einnig benda á að hv. þm. Sjálfstfl. taka undir að hér sé um ófremdarástand að ræða, hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir og Guðmundur Hallvarðsson.
    Ég tel að umræða um endurmat og stefnumótun í heilbrigðisþjónustunni sé mjög aðkallandi. Það samdráttarástand sem við búum nú við gengur ekki lengur. Við verðum að huga að forgangsröðun verkefna og endurskoða skiptingu og nýtingu þess fjár sem til heilbrigðisþjónustunnar er varið. Við verðum að horfast í augu við það að fámenn þjóð eins og við höfum ekki efni á því að halda úti fullkomnum sjúkrahúsum víða. Við verðum að hætta að dreifa fjármagninu eins og ég sagði áðan og beita því þannig að það komi sem flestum að bestum notum og þá mun sparnaðurinn síður bitna á þeim sem minnst mega sín. Þannig ættum við, hæstv. ráðherra, að komast hjá lokunum.