Úrskurður umboðsmanns Alþingis um skráningargjald við Háskóla Íslands

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 13:38:38 (219)


[13:38]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Það er auðvitað alveg rétt hjá honum að þessi úrskurður snertir eingöngu háskólann. En það er hins vegar ljóst að framhaldsskóladæmið hlýtur að koma upp í þessu samhengi líka af því að það er umdeilanlegt, að ekki sé meira sagt, að það sé lagastoð undir innheimtu skólagjalda í framhaldsskólunum. Þess vegna á sú spurning að sjálfsögðu rétt á sér í tilefni af úrskurði umboðsmanns Alþingis um Háskóla Íslands og ég er þeirrar skoðunar að það sé óhjákvæmilegt að um þessi mál verði tekin umræða í þinginu á því vorþingi sem nú stendur vegna þess að þingið verður auðvitað að hafa það á hreinu hvaða lagagrunnur er undir ákvörðunum framkvæmdarvaldsins, hverjar svo sem þær eru, bæði að því er varðar háskólana í þessu tilviki og að því er varðar framhaldsskólana líka. Vilji hæstv. menntmrh. ekki taka það fyrir hér í þessari virðulegu stofnun, þá verða stjórnarandstæðingar eða einhverjir aðrir þingmenn að sjá til þess að það verði gert.