Úrskurður umboðsmanns Alþingis um skráningargjald við Háskóla Íslands

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 13:40:55 (222)


[13:40]
     Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég vil ítreka það að hv. þm. kynni sér það sem felst í áliti umboðsmanns og byggi ekki umræður hér eingöngu á blaðafréttum. Það sem umboðsmaður Alþingis segir í sínu áliti er það að lagaforsendur fyrir álagningu skrásetningargjaldsins eru fyrir hendi. Lagaforsendur fyrir álagningu skólagjalda í framhaldsskólunum eru fyrir hendi. Hvernig gjaldið er skilgreint, hve fjárhæðin er há í háskólanum er umdeilanlegt að mati umboðsmanns Alþingis og um það snýst þetta mál en ekki um það hvort háskólinn hafi haft heimildir til þess lagalega að leggja gjaldið á. ( SvG: Að leggja á skatta?)