Reglugerð fyrir ofanflóðasjóð um aðstoð vegna snjóflóða

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 13:41:40 (223)

[13:41]
     Sighvatur Björgvinsson :
    Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. forsrh. Eins og menn muna gaf hæstv. forsrh. út yfirlýsingu fyrir hönd þáv. ríkisstjórnar eftir hin hörmulegu slys í snjóflóðunum vestur á fjörðum í vetur um að stjórnvöld mundu gera allt sem í þeirra valdi stæði til þess að aðstoða þá sem urðu þar fyrir skaða, bæði þá sem urðu fyrir skaða og eins þá sem búa í næsta nágrenni á skilgreindum hættusvæðum og það er málefni þeirra sem ég vildi víkja að.
    Það voru samþykkt hér lög frá Alþingi um í hvaða farveg skyldi fella þá aðstoð, þ.e. í farveg ofanflóðasjóðs sem mundi síðan veita fyrirgreiðslur til þess að fólk sem byggi á skilgreindum hættusvæðum gæti flutt þaðan. Nú stendur svo að margar fjölskyldur sem bjuggu í næsta nágrenni við snjóflóðin þurftu í vetur að flytja ítrekað burtu úr húsnæði sínu vegna hættuástands og sumt af þessu fólki á erfitt með að hugsa sér til annars vetrar við slíkar aðstæður.
    Þrátt fyrir að lög um ofanflóðasjóð hafi verið sett þá liggja enn ekki fyrir þær reglur sem hann ætlar að beita, fólkið sem bíður eftir afgreiðslu fær engin svör þar um og framkvæmdatímabilið að hefjast. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh.: Er hæstv. forsrh. ekki reiðubúinn til þess að veita atbeina sinn að því að þessari reglugerðarsetningu verði lokið sem allra fyrst þannig að hægt sé að eyða óvissu þessa fólks og það viti af því að það geti nýtt sér framkvæmdatímabilið í sumar til að gera þær breytingar sem gera þarf til að forða fjölskyldum þess og því sjálfu frá því hættuástandi sem það þurfti að búa við á sl. vetri?