Reglugerð fyrir ofanflóðasjóð um aðstoð vegna snjóflóða

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 13:45:06 (225)


[13:45]
     Sighvatur Björgvinsson :
    Virðulegi forseti. Mér er það ljóst að hér er mikið verk fyrir höndum og kostnaðarsamt ef það á, eins og reiknað er með, að gera þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að gera gagnvart því fólki sem byggir öll þau svæði sem skilgreind hafa verið og skilgreind verða sem hættusvæði vegna snjóflóða. Þar verða menn að velja og hafna og raða í forgangsröð. En ég er að tala um það fólk sem bjó í húsum á snjóflóðasvæðunum frá því í vetur sem ítrekað var flutt burtu af heimilum sínum og getur ekki hugsað sér að eiga annan vetur við slíkar aðstæður. Það stendur í þeirri von að það geti notað framkvæmdatímabilið í sumar til þess að ráðast í þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru til að koma í veg fyrir að slíkt ástand skapist aftur. Ég vona að ég megi treysta því að þessi orð hæstv. forsrh. megi túlka á þann veg að svo geti orðið að framkvæmdatíminn í sumar geti nýst þessu fólki sem hlýtur að vera í forgangshópi.