Endurskoðun laga um náttúruvernd

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 13:48:30 (227)


[13:48]
     Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Hæstv. forseti. Út af þessari fyrirspurn hv. 4. þm. Austurl. vil ég segja að eins og þingheimi er kunnugt er gert ráð fyrir að ráðuneytin semji á þessu sumri verkefnaskrá fyrir ráðuneytin sem lögð verður hér fyrir þingið að hausti. Sú vinna er nú u.þ.b. að hefjast, sjálfsagt mislangt komin hjá einstökum ráðuneytum en er að hefjast í umhvrn. Ég hef þegar rætt þar við embættismenn um það hvernig staðið var að þessari vinnu sem í gangi var á síðasta og síðustu þingum og hv. þm. vitnaði hér til. Ég hef velt því fyrir mér hvort ekki sé skynsamlegra að taka lögin til endurskoðunar í heild sinni heldur en að taka út úr þeim einstaka þætti. Þeir sem ég hef þegar rætt við, bæði innan ráðuneytis og utan, því ég hef líka átt viðræður við fulltrúa ýmissa áhugasamtaka um náttúruvernd um það hvernig skynsamlegast væri að taka á þessu máli, telja það almennt betra að taka lögin í heild til endurskoðunar sem ég hygg að sé fyllilega tímabært. En ég hef þó ekki gert þetta endanlega upp. Ég á eftir að skoða hversu langt þetta var komið í meðferð Alþingis og þau viðhorf sem þar komu upp um það að taka fyrst og fremst á stjórnunarþættinum sem ég held að hafi verið það sem var komið lengst á síðasta þingi.
    En varðandi síðan hverjir kæmu að þeirri endurskoðun þá vil ég segja það við hv. þm. og þingheim að ég tel að það sé fyrst og fremst á ábyrgð ráðherra og ríkisstjórnar að leggja þetta fyrir þingið. Þingið kemur síðan að þessu frv. eins og öðru til efnislegrar umfjöllunar. Ég er þó alls ekki neitt að útiloka það að að málinu komi bæði fulltrúar hagsmunasamtaka og fulltrúar þingflokka en ég vil ekki gefa yfirlýsingar um það á þessu stigi.
    Svo að lokum, ég sé að tími minn er alveg að renna út, um efnistöku, malarnám og mikla umræðu á síðustu dögum um vikurnám t.d., þá vil ég segja það út af þessari fyrirspurn hv. þm. að það mál hefur nýlega verið til umræðu í ríkisstjórn, að vísu að frumkvæði hæstv. iðnrh. sem hefur með að gera útgáfu námaleyfanna en auðvitað þurfa þau mál öll að fara líka fyrir umhvrn. og í umhverfismat og ég mun vissulega fylgjast með því hvernig þeim málum vindur fram.