Endurskoðun laga um náttúruvernd

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 13:52:30 (229)


[13:52]
     Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Hæstv. forseti. Það var nú svo sem ekki viðbótar fyrirspurn til mín en ég vil aðeins árétta að það var auðvitað þarft og ánægjulegt að minna okkur á hlutverk Eysteins Jónssonar í náttúruverndarmálum fyrir þessa þjóð.
    En varðandi efnistökuna þá er mér fyllilega ljóst að þar þarf að fara að með allri gát. Auðvitað eru þessi svæði þar sem verið er að taka t.d. vikur misviðkvæm. Sum eru þess eðlis að fyrst og fremst þarf að ganga vel um þau og skilja við þau í því ástandi að ásættanlegt sé. En önnur eru af náttúrufarslegum ástæðum miklu viðkvæmari og varða jafnvel dýrmæta og fagra staði frá náttúruverndarsjónarmiði og um þá þarf að ganga með sérstakri varúð, ekki síst með tilliti til þess að við erum líka að reyna að byggja hér upp atvinnuveg sem heitir ferðaþjónusta og við þurfum að ganga um landið okkar með tilliti til þess þáttar einnig.