Boðað verkfall á fiskiskipum

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 14:03:15 (234)


[14:03]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 11. þm. Reykn. fyrir að vekja máls á þeirri alvarlegu kjaradeilu sem yfir stendur og yfirvofandi verkfalli ef ekki tekst að semja í tíma. Af því tilefni átti ég samtal í morgun við ríkissáttasemjara og innti hann eftir gangi viðræðnanna. Hann tjáði mér að fram til þessa hefðu þessar viðræður farið fram stöðugt og án þess að óeðlilegt hlé hefðu orðið þar á. Hann sagði enn fremur að staða viðræðnanna væri mjög viðkvæm á þessu stigi og í þriðja lagi að það yrði reynt til þrautar að leita sameiginlegrar niðurstöðu áður en verkfall skylli á. Ég bið menn að sjálfsögðu að hafa það í huga að samningsaðilar undir stjórn ríkissáttasemjara sitja á fundum á mjög viðkvæmu stigi deilunnar og samkvæmt þessum upplýsingum reyna til þrautar að ná niðurstöðu.
    Varðandi þær spurningar sem hv. þm. beindi til mín vil ég segja þetta: Að því er varðar fyrstu spurninguna, þá eru ekki um það áform af hálfu ríkisstjórnarinnar að banna þessa kjaradeilu með lögum. Það er réttur samningsaðila að gera út um deilu sem þessa og þeim rétti fylgja líka miklar skyldur. Það eru réttindi og ábyrgð samningsaðila að ljúka deilunni í frjálsum viðræðum sín á milli.
    Varðandi aðra spurninguna er það að segja að ég vil ekki blanda mér inn í þetta deiluefni sjómanna og útvegsmanna fremur en önnur, en ég hlýt þó að geta sagt það að ég og ég hygg flestir hljóti að hafa skilning á þeirri óánægju sem sjómenn hafa lýst þegar útgerðarmenn eru að leigja útgerð skipa sinna til svæða þar sem ekki er verkfall eða til erlendra útvegsmanna í þeim tilgangi að komast undan verkfallinu og draga úr áhrifum þess.
    Varðandi þriðju spurninguna vil ég lýsa þeirri skoðun minn að ég tel að fiskverð eigi að mótast á markaði ýmist með samningum aðila eða með sölu um fiskmarkaði og ég teldi það óheppilegt að setja um það fortakslausa löggjöf að allur fiskur skyldi undantekningarlaust fara um fiskmarkaði.
    Varðandi fjórðu spurninguna vil ég segja það að ég hef ekki lagt mat á kröfur sjómanna né heldur gagnkröfur útvegsmanna í þessari deilu.
    Um fimmtu spurninguna er það að segja að efnisatriði þeirra frumvarpa sem unnið hefur verið að um breytingu á fiskveiðistjórnunarlögum lúta ekki að þeirri kjaradeilu sem nú stendur yfir.