Boðað verkfall á fiskiskipum

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 14:21:36 (240)


[14:21]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hreyfa þessu máli og tek undir með honum að ekki er hægt annað en lýsa þungum áhyggjum af því hvernig kjaradeila sjómanna á fiskiskipum er að þróast og að verkfall blasir nú við. Þetta er stórkostlegt áhyggjuefni fyrir atvinnugreinina og fyrir þjóðarbúið í heild, ekki síst núna um þessar mundir þegar þannig háttar til að verið er að draga mikla björg í bú með veiðum utan landhelgi.
    Á hinn bóginn verður að horfast í augu við það að í reynd rekast á hlutaskiptakjör sjómanna annars vegar og aflamarkskerfi með framsali og vandamál sem upp koma í sambandi við verðlagningu í því hins vegar. Þessir árekstrar hafa haldið áfram og þau vandamál hefur ekki tekist að leysa með viðunandi hætti. Því er nú staðan sú að í annað skipti á skömmum tíma stöndum við frammi fyrir verkfalli sem kemur til vegna þessara árekstra. Um áramót 1993--1994 stóð verkfall og síðan komu til sögunnar bráðabirgðalög. Í framhaldinu var reynt að setja þessi mál í farveg en nú er staðan aftur þessi að verkfall blasir við.
    Ég vil einnig taka undir það sem hér hefur verið sagt að það getur svo ekki annað en gert ástandið verra ef útgerðamenn fara út á þá braut að reyna að koma sér undan lögmætum og rétt boðuðum aðgerðum sjómanna. Það getur ekki orðið til annars en að gera deiluna illvígari. Það er líklegt til að kalla á samúðaraðgerðir annarra verkalýðsfélaga og setja málin í enn verri hnút heldur en orðið er. Ég vil leyfa mér að spyrja hvort stjórnvöld hafi kannað hvort það sé sjálfgefið að það beri að samþykkja slíkar umskráningar ef ljóst má vera að eini tilgangur þeirra er sá að komast undan lögmætum og rétt boðuðum aðgerðum í kjaradeilum. Er ekki hægt að stöðva það að slíkar umskráningar eigi sér stað með svipuðum hætti og ýmsar aðrar aðgerðir eru ekki látnar gilda ef boðað er til þeirra í vinnudeilum, svo sem uppsagnir starfsfólks? Ég teldi ástæðu til að hvetja hæstv. ríkisstjórn til þess að kanna hvort ekki er hægt að afstýra því að þarna fari málin í enn verri hnút en ella með því að þetta gerist á næstu klukkutímum eða sólarhringum. Að lokum hvet ég alla málsaðila og þar með talið hæstv. ríkisstjórn til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að leysa þessa deilu áður en hún fer í verri hnút en orðið er.