Framkvæmdaáætlun til að ná fram launajafnrétti kvenna og karla

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 15:27:08 (255)


[15:27]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Sú tillaga sem við ræðum hér sem og það mál sem var til umræðu í gær, 5. mál þingsins, eru báðar góðra gjalda verðar og taka á máli sem hefur verið til umræðu í vaxandi mæli sem betur fer, m.a. í ljósi upplýsinga sem hafa verið að koma fram um stöðu þessara mála og hversu hægt gengur að ná þeim markmiðum sem lög kveða á um í sambandi við jafnrétti milli kynja. Ég ætla ekki að ræða þessar tillögur í einstökum atriðum, enda aðeins önnur þeirra hér til umræðu, en aðeins segja nokkur orð um málið út frá almennum sjónarmiðum.
    Ég tel að mjög hafi skort á það á undanförnum mörgum árum að af hálfu fjárveitingavalds og framkvæmdarvalds væri lagt það fram sem þarf til þess að styðja með beinum og óbeinum hætti að því að ná fram þeim markmiðum sem hér er um að ræða. Sumpart hefur ríkt ágreiningur um það hvort þær leiðir sem vísað hefur verið til í þeim efnum væru líklegar til að skila árangri en jafnframt hefur verið um að ræða pólitíska tregðu til þess að taka á málunum. Þetta er að sjálfsögðu mitt mat sem ég er að leiða fram en gæti rökstutt með vísun í dæmi. Þetta á m.a. við að sjálfsögðu um fjármagn sem tengist markmiðum sem fram komu í 3. gr. laga um jafnrétti karla og kvenna, en þetta á einnig við um ýmsa stuðningsþætti til þess að taka á vandamálum og hjálpa þeim sem eiga í vök að verjast sem eru konurnar, hjálpa þeim til þess að ná tökum á málum og ná betri viðspyrnu til þess að gera sig gildandi á vinnumarkaði. Í þessu sambandi nefni ég tillögur sem fram komu og ég var flm. að á sínum tíma með fleirum um jafnréttisráðgjafa sem kæmu til starfa í landshlutunum, nokkra jafnréttisráðgjafa tengda félmrn. til þess að taka á fjölmörgum þáttum sem varða veikari stöðu kvenna. Veikur vísir að þessu máli komst inn í jafnréttislöggjöfina, þó miklu veikari en tillögur stóðu til um í þeirri nefnd sem ég átti sæti í við endurskoðun á þeirri löggjöf.
    Ég ætla ekki að fara að segja það sjálfum mér til hróss, en í sambandi við þá vinnu var það nú svo að það komu fram tillögur, sem ég átti m.a. hlut að, inn í þá nefnd varðandi endurskoðun á jafnréttislöggjöfinni sem ekki fengu þar undirtektir, sem ekki höfðu verið þar til umræðu í nefndinni áður en ég kom inn í störf hennar og sem enn eru ekki komnar inn í löggjöf. Yfir þetta væri hægt að fara í einstökum atriðum. Ég nefni hér dæmið um jafnréttisráðgjafa. Ég nefni líka dæmið um sérstakan umboðsmann jafnréttismála, fyrirkomulag sem hefur verið tekið upp í nágrannalöndum okkar í Skandinavíu þar sem konur geta leitað réttar síns. Tillögur um þetta náðu ekki fram að ganga í nefndinni og nutu ekki stuðnings þáv. hæstv. félmrh. sem skipaði formann nefndarinnar og var hennar fulltrúi í þessari nefnd. Ég veit ekki hvaða sjónarmið réðu, hvort það voru sparnaðarsjónarmið eða vantrú á að þetta væri einn þátturinn sem réttmætt væri að koma á hér á landi til þess að styrkja stöðu kvenna alveg sérstaklega á vinnumarkaði en einnig varðandi aðra þætti sem þær eiga undir högg að sækja, að sjálfsögðu að formi til einnig réttur karla til þess að leita réttar ef þeir telja að á hann sé gengið, en það er ekki okkar áhyggjuefni sérstaklega sem tengist þessari umræðu.
    Ég vildi svo aðeins, virðulegur forseti, víkja að öðrum þáttum sem varða stöðuna á hinum almenna vinnumarkaði. Menn eru mikið að tala um hinn opinbera vinnumarkað, stöðu kvenna þar og hvernig hann er fyrir borð borinn. Nú gleymdi ég í því sambandi að nefna frv. sem ítrekað var til umræðu á Alþingi og ég var 1. flm. að ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, um að beita kvóta í sambandi við opinberar tilnefningar í stöður, að beita þar 40--60% kvótareglu. Þetta hlaut ekki stuðning. Ég ætla ekki að fara yfir það hverjir studdu það sjónarmið og hverjir ekki en ég er alveg sannfærður um að einnig slík aðgerð væri skynsamleg, væri nauðsynleg varnaraðgerð í þeirri stöðu sem við erum, en hún hefur ekki fengið meirihlutastuðning í þinginu.
    Síðan það sem snýr að hinum almenna vinnumarkaði og þá kem ég m.a. að því sem kom fram í máli hv. 16. þm. Reykv., Péturs Blöndals, spurningin um að ráða hinn hæfasta. Ég tók eftir því þegar ég á skrifstofu minni í gær hlýddi á ræðu hv. þm. við annað skylt mál að þá lagði þingmaðurinn einnig áherslu á þetta atriði og hafði trú á því að mér fannst að hinn almenni markaður mundi leysa málið. Ég átta mig satt að segja ekki á grunninum undir þessum málflutningi. Það er matið á hver sé hinn hæfasti stjórnandi fyrirtækja og þeir sem ráða fólk. Það er að sjálfsögðu ákvörðunaratriði viðkomandi. Hvernig ætlar hv. þm. að ná árangri í þeim efnum þannig að sú mismunun sem blasir við á hinum almenna vinnumarkaði verði leiðrétt án þess að það komi til inngrip og leiðbeinandi reglur? Hann er bara að vísa á guð og lukkuna í þessum efnum og ekkert annað og þar náttúrlega eru það hefðirnar sem leggjast gegn konum, þar eru það hin almennu markaðslögmál sem leggjast gegn konum og fjölmargir aðrir þættir. Ég held því að hv. þm. hafi verið að vísa á uppfinningu hjólsins í þessum efnum nema fram komi nánari skýringar um þetta.
    Þá kem ég að því sem er hin almenna þjóðfélagsþróun mjög víða og sem við erum þátttakendur í. Það er hin síharðnandi samkeppni á vinnumarkaði sem torveldar konum möguleika af ýmsum ástæðum, ekki vegna þess að þær skorti hæfni, heldur vegna þess að uppbygging samfélagsins að öðru leyti er ekki sniðin að þeirra aðstæðum og þeirra þörfum og þörfum fjölskyldunnar. Og þar nægir að líta á það stóra fyrirbæri sem við erum tengd í gegnum EES-samninginn, Evrópusambandið, sem er í auknum mæli og verður að bregðast við síharðnandi samkeppni og gerir það eftir markaðslögmálum einum. (Forseti hringir.) Það

væri hægt að leita víðar til þess að sýna hver þróunin er og hvernig hún stefnir beint gegn jafnréttissjónarmiðum vegna hins almenna gangverðs markaðslögmálanna. Það er ekki tími til að ræða frekar.