Framkvæmdaáætlun til að ná fram launajafnrétti kvenna og karla

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 15:45:02 (258)


[15:45]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Mér þykir gott að heyra það og okkur öllum væntanlega að hæstv. félmrh. er í góðu skapi og miklu andlegu jafnvægi og að hann tekur þessum tillöguflutningi vel og með jákvæðum formerkjum. Það er mjög gott. Ég skal að vísu viðurkenna að það voru aðallega þau ummæli sem lutu að fyrri störfum tillögumanna sem mér fundust ekki alveg viðurkvæmileg vegna þess að mér fannst með því látið að því liggja að viðkomandi hv. þm. hefðu á fyrri starfsvettvangi átt að vera í aðstöðu til þess að kippa þessum málum í liðinn en ekki tekist sem skyldi. Ætli það sé nú ekki svo að einmitt sú reynsla hv. tillögumanna geri það að verkum að þeir átta sig á því að hér er um margslungin og erfið mál að ræða sem ekki er hrist fram úr erminni að kippa í liðinn. Það mun væntanlega hæstv. jafnréttismálaráðherra því miður upplifa á sínum ferli, langur eða skammur sem hann verður, að það að koma hér á og tryggja fullkomið jafnrétti í launum er ekkert áhlaupsverk. Þess vegna finnst mér að við ættum að ræða það af sanngirni hvert í annars garð og taka viljann fyrir verkið og taka það sem er lagt fram með jákvæðum huga inn í þessa umræðu eða tillögusafn þannig eins og það er gert. Það hefur hæstv. ráðherra upplýst að hann ætli að gera og að tillögur af þessu tagi verði ekki settar ofan í skúffu, heldur hafðar með í farteskinu og í nestinu þegar farið verður að vinna að þessum málum, vonandi af skörungsskap, á næstu mánuðum.