Framkvæmdaáætlun til að ná fram launajafnrétti kvenna og karla

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 15:48:17 (260)

[15:48]
     Bryndís Hlöðversdóttir :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur komið með margar forvitnilegar tillögur sem hann telur til úrbóta í jafnréttismálum og ég ætla ekki á nokkurn hátt að gera litið úr þátttöku hans í umræðunum. Þvert á móti fagna ég áhuga þeirra karla sem hér hafa tekið til máls, Péturs Blöndals sem og annarra, ekki síður en kvennanna. Ég vil þó endilega taka það fram að ég er ósammála þeirri staðhæfingu hv. þm. Péturs Blöndals að einkavæðing sé lausnarorðið og þá vísa ég til ræðu minnar áðan þar sem ég benti á það að launamisrétti fer fyrst að myndast í hinum frjálsu samningum atvinnurekenda og einstakra launamanna. Þess vegna er ég ekki heldur sammála því sem hæstv. félmrh. vitnaði til áðan sem skoðunar einhverra að verkalýðshreyfingin væri helsti orsakavaldur launamisréttis kvenna og karla. Ég er með þessu ekki að segja að verkalýðshreyfingin hafi ekki mátt gera betur í jafnréttisbaráttunni eða að hún mætti ekki reyna að hafa meiri áhrif á þessi mál eftir að félagslegu samningunum sleppir. Ég er einfaldlega að segja að ég tel verkalýðshreyfinguna mikilvægan þátt í þjóðfélaginu og þess vegna þurfi að vinna að þessum málum í samvinnu og samráði við hana.
    Hér hefur bæði í gær og í dag í máli hv. þm. oft verið talað um viðhorf karla til kvenna og ekki síður viðhorf kvenna til þeirra sjálfra. Þetta er satt og rétt en hv. þm. Pétri H. Blöndal, sem hefur verið hvað tíðræðast um þetta, láðist að nefna einn orsakavaldinn í viðbót sem er viðhorf karla til karla. Það er ekki síðri þáttur í þessu öllu saman, ofmat karla á körlum og það er einmitt þar sem stöðuveitingarnar, hvort sem eru sýslumenn eða ráðherrar, segja sína sögu.
    Að lokum, virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja frekar um athugasemd hæstv. félmrh. um fyrri störf flm. Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur þegar svarað að miklu leyti fyrir það og hæstv. félmrh. skýrt að nokkru leyti mál sitt.