Framkvæmdaáætlun til að ná fram launajafnrétti kvenna og karla

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 15:57:06 (263)



[15:57]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er ekki ætlun mín að bæta miklu við þessa umræðu en ég get þó ekki orða bundist og vil segja örfá orð í framhaldi af ræðu minni í gær, en það er einkum vegna orða hv. þm. Péturs Blöndals sem ég kveð mér hljóðs.
    Hv. þm. talaði um þörfina á því að auka sjálfsálit kvenna eða að eitthvað sé gert í þeim málum og ég get að hluta til tekið undir það álit hans og það kom m.a. fram í þeirri skýrslu sem hér var til umræðu í gær um kynbundinn launamun að konur virðast hafa tilhneigingu til að vanmeta sjálfa sig og hæfni sína til starfa, en karlar hafa tilhneigingu til þess að ofmeta hana þannig að ég tel að þetta sé réttmætt að hluta til hjá honum. En það ber líka að ítreka sem ég sagði í gær að þetta er oft notað sem rök, einnig á þær konur sem eru fullar sjálfstrausts og gera kröfur í samræmi við það. Þá er sagt að konur séu of ákveðnar eða frekar og þær geri óraunhæfar kröfur. Það er sem sagt alveg sama hvernig konur eru, hvað þær gera. Þeim sjálfum er alltaf kennt um vandann í þessum efnum sem á sér í raun rætur í viðhorfum karlasamfélagsins og valdakerfi þess og þeim viðhorfum er hægt að breyta og ber að breyta.
    Sem uppeldissálfræðingur er ég sammála hv. þm. Pétri Blöndal um að ein leið til þess að styrkja sjálfsmynd og sjálfsvirðingu kvenna er að nota skólakerfið, en þar er vandinn ansi mikill, því miður, og það hef ég kynnt mér sérstaklega í rannsóknum mínum undanfarin ár. Til dæmis er einn vandinn sá að þó að konur séu mikill meiri hluti kennara, þá eru þær mun færri sem skólastjórar og það skiptir miklu máli m.a. vegna fyrirmyndanna. Í öðru lagi eru konur mun ósýnilegri í kennslubókunum en karlar og þær eru oft sýndar í hlutverkum samfélags gærdagsins. Í þriðja lagi hefur verið hér lögbundin fræðsla um jafnréttismál í 20 ár en það er mjög óvíða sem sú fræðsla á sér stað og það fullyrði ég eftir kannanir sem ég hef sjálf gert úti í skólunum og ýmsar fyrirspurnir sem ég hef lagt hér fyrir á hinu háa Alþingi. Það má nefna eitt enn. Það hefur verið markvisst átak gert til þess að koma þessum málum inn í kennaramenntunina og því miður verður að segja að það gengur mjög erfiðlega.
    Enn einn þáttur í sjálfsmatinu er sú virðing sem konum er sýnd m.a. í launum og fyrirmyndirnar sem konur sjá fyrir sér í valdastöðum. Og ég vil aðeins að lokum ítreka það sem kom fram hjá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur, þá mynd sem hún sýndi okkur hér áðan af karlastjórninni, ég held að við gætum farið í næstum því hvaða fyrirtæki landsins sem er, hvort sem er í einkageiranum eða ríkisfyrirtæki, æðstu stjórnir mundu vera að stórum meiri hluta karlar. Þessu verður að breyta og því eru þessar tvær tillögur fluttar hér og það er svo sannarlega von mín að þessi umræða haldi áfram hér í vetur og aðgerðir komi í kjölfarið.