Matvæli

7. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 15:24:42 (272)


[15:24]
     Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 11. þm. Reykn. fyrir þær athugasemdir sem hann setur hér fram og fyrir það að hafa farið vel yfir málið og undirstrika mikilvægi þess að löggjafinn samþykki samræmda löggjöf um matvæli sem er eins og fram hefur komið búin að vera æðilengi í smíðum og síðan í umfjöllun í þingi aftur og aftur. Vonandi er komið að því að menn treysti sér til þess að afgreiða málið.
    Varðandi athugasemdir við 7. gr. og yfirstjórn sjútvrh. á þeim málum sem varða meðferð, flutning, geymslu og vinnslu sjávarafurða ítreka ég það sem kom fram í máli mínu áðan að ljóst er að lögin

og yfirstjórnin heyrir undir stofnanir þriggja ráðuneyta og gert er ráð fyrir sérstöku samstarfsráði sem skipað er fulltrúum Hollustuverndar ríkisins sem heyrir nú alveg undir umhvrn., Fiskistofu sem heyrir undir sjútvrn. og yfirdýralæknis sem heyrir undir landbrn. og eru þau ráðuneyti sem koma að málinu. Vonandi er hægt í slíku samstarfsráði að taka a.m.k. á eða fjalla um álitamál eða ágreiningsefni sem kunna að koma upp. En ég hef ekki á móti því og finnst sjálfsagt og eðlilegt að hv. umhvn., sem fær málið til meðhöndlunar, skoði þessa þætti, skoði þær athugasemdir sem koma fram hjá hv. þm. og einnig athugasemdir hans við 23. gr. Ég gerði reyndar grein fyrir því líka að reynt væri að taka á eftirlitsþættinum þannig að það væru sem fæstir aðilar sem kæmu að því og að fyrirtæki og þeir sem þurfa að sæta þessu eftirliti gætu sem mest snúið sér til eins aðila en reynt að koma í veg fyrir það að eftirlitsiðnaður sé á ferðinni aftur og aftur út af sömu atriðunum. Nauðsynlegt er að huga til málanna með þeim hætti og hafa þau sjónarmið eða viðhorf í huga.
    Varðandi lokaathugasemd hv. þm. verð ég að viðurkenna að ég hef ekki fyrir framan mig upplýsingar um það sérstaklega en vísa því til nefndarinnar einnig og að hún leiti sér upplýsinga um málið í heild sinni og gefi sér tíma til þess að fara ítarlega yfir það en þó vonandi ekki það langan tíma að ekki takist að afgreiða það nú. Ég heiti því að embættismenn umhvrn. muni verða nefndinni tiltækir og til upplýsinga og til aðstoðar eftir því sem þörf er á og nefndin telur ástæðu til þannig að hraða megi afgreiðslu málsins.