Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

7. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 15:38:42 (274)


[15:38]
     Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Ég kem hér með dálítinn póst frá Brussel, þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Hér er um að ræða eftirlegukind úr þeim viðbótarsamningi um Evrópska efnahagssvæðið sem tók gildi 1. júlí 1994. Þetta frv. hefur komið á borð hv. þm. áður. Frv. er nú flutt í þriðja sinn en dagaði uppi í bæði hin fyrri skipti í félmn.
    9. nóv. sl. voru umræður um þetta mál og þá sagði ég eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Ég verð að segja að mér finnst þetta heldur fátæklegt þingskjal og nokkuð óvenjulegt að formi til, en ég vil vekja athygli á því að þetta mál er eitt af þeim sem yfir okkur dynur eða við verðum að undirgangast út af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Það er sjálfsagt ekki ástæða til þess að fara að fjölyrða mikið um þetta, þetta er eitt af því sem við verðum að kyngja, en ekki er ég sannfærður um að þetta mál sé verulegur fengur fyrir okkur Íslendinga.``
    Svo mörg voru þau orð í ræðu minni þá.
    Þessi afstaða mín er enn í fullu gildi og gersamlega óbreytt.
    Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða mikið um efnislegt innihald frv. enda hefur það verið rækilega kynnt í framsöguræðum tveggja fyrrv. félmrh., fyrrv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur á 117. löggjafarþingi og fyrrv. félmrh. Guðmundar Árna Stefánssonar á 118. löggjafarþingi. Síðan er efninu gerð ítarleg skil í þskj. Ég ætla ekki að endurflytja þær ræður sem þau fluttu.
    Þær efnislegu breytingar sem frv. felur í sér hafa það að markmiði að efla og auðvelda atvinnuráðningar og vinnumiðlun á milli aðildarríkjanna. Aðalatriðin í frv. eru að vinnumiðlnanir eiga að bjóða öll störf á Evrópska efnahagssvæðinu sem atvinnurekendur óska eftir í stað þess að leita fyrst að innlendu vinnuafli.
    Í öðru lagi eru felld niður ákvæði um mögulegar aðgerðir eða stöðvun vinnumiðlunar til einstakra atvinnusvæða eða í einstakar atvinnugreinar ef sérstök röskun verður á vinnumarkaði. Öryggisákvæði EES-samningsins gegna þó svipuðu hlutverki og eru þau í fullu gildi.
    Í þriðja lagi er um að ræða aukin upplýsingasamskipti, m.a. að svara fyrirspurnum um atvinnutækifæri innan mánaðar auk þess sem breytingarnar fela í sér grundvöll fyrir Evrópska vinnumiðlunarkerfið, EURESS. Samkvæmt upplýsingum vinnumálaskrifstofu félmrn. hefur ekkert reynt á þessi atriði nema um fyrirspurnir og önnur upplýsingasamskipti og hefur vinnumálaskrifstofan staðið að framkvæmdinni í samræmi við þessar breytingar. Þess má geta að 11. maí sl. tengdist vinnumálaskrifstofan EURESS-kerfinu, en stefnt er að því að meginþungi þjónustunnar fari í gegnum vinnumiðlanir og þá fyrst og fremst vinnumiðlun Reykjavíkur sem er að byggja upp öfluga og sérhæfða vinnumiðlun. Fjöldi starfa í þessu kerfi er enn sem komið er mjög takmarkaður og fyrst og fremst um að ræða sérhæfð störf. Hins vegar hefur kerfið eitthvert uppýsingagildi um atvinnu- og lífsskilyrði í ESB-ríkjunum, en ekki er lokið við að setja upp upplýsingar um gömlu EFTA-ríkin inn í kerfið.
    Þó að lítið hafi reynt á einstök ákvæði gildandi laga um frjálsan atvinnu- og búseturétt hér á landi eru enn sem komið er engin sérstök vandamál við framkvæmdina. Aðalatriði er fyrst og fremst fólgið í því að upplýsa fólk nægjanlega um atvinnumöguleika í einstökum löndum og gildandi reglur á þessu sviði áður en það fer í atvinnuleit til annarra landa.
    Ég vil svo að lokum leggja áherslu á að þetta er þriðja tilraunin til þess að koma þessu máli í gegnum þingið og þar sem um er að ræða breytingu á ESB-reglugerð þá er hvorki um það að ræða að gera orðalagsbreytingar né efnisbreytingar á fyrirliggjandi reglugerð. Breytingin er einungis til samþykktar eða synjunar og synjun mundi, eins og öllum er ljóst, hafa ófyrirsjáanleg áhrif og kemur hér enn að því sem ég hef margoft tekið fram í umræðum um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að hann bindur hendur löggjafarvalds og framkvæmdarvalds að þessu leyti.
    Herra forseti. Ég legg til að að þessari umræðu lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og félmn.