Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

7. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 16:07:47 (277)


[16:07]
     Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. tók áðan að sér að bera í bætifláka fyrir hæstv. félmrh. og væntanlega sem fornan fóstbróður í stríðinu gegn EES-samningnum úr stjórnarandstöðunni. Það var út af

fyrir sig fallega gert af honum, ræktarsemi, og augljóslega veitti nú ekki af.
        Vinn það ei fyrir vinskap manns
        að víkja af götu sannleikans
sagði sálmaskáldið forðum og þessi artarsemi er að sumu leyti misskilningur því að málið snýst ekkert um það. Málið snýst um það hvort stjórnmálamenn bera virðingu fyrir staðreyndum, hvort stjórnmálamenn ætlast til þess af almenningi að mark sé tekið á orðum þeirra þegar þeir sjálfir bera augljóslega enga virðingu fyrir staðreyndum og taka ekkert mark á eigin málflutningi. Af því að hv. þm. er ekki eins og hann orðaði það sjálfur bara óbreyttur þingmaður heldur formannsefni a.m.k. eða formannsframbjóðandi í stjórnmálahreyfingu þá stendur uppi þessi spurning: Er hann ekki a.m.k. sammála mér um að það verði að ætlast til þess af frambjóðendum, hvort heldur er fyrir kosningar eða til formennsku, að menn geti treyst því að þeir fari með mál eftir bestu samvisku og kjósendur megi treysta því að það sem þeir eru að boða og segja meini þeir og ætli að beita sér fyrir? Um þetta snýst málið því að ef menn hegða sér öðruvísi eru þeir sjálfir búnir að draga stjórnmálabaráttu niður í svaðið og gera stjórnmálaumræðuna ómerka vegna þess að það er ekki mark takandi á því sem þeir segja. Það er bara fleipur og ómagaorð, skens. Og menn segja eitt í stjórnarandstöðu og annað í stjórn og meina þar af leiðandi ekkert sem þeir eru að segja. Um þetta snýst umræðan.