Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

7. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 16:10:13 (278)


[16:10]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var mikill misskilningur að ég hafi komið hingað upp sérstaklega til þess að verja hæstv. félmrh. enda hefur hann hingað til verið fullfær um það sjálfur. Ég vék máli að báðum ræðumönnum, hæstv. félmrh. og hæstv. fyrrv. utanrrh., hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni, og ég hvatti báða til þess að gæta hófs í umræðum sínum um deilur frá liðinni tíð. Það er auðvitað þannig að menn deila um tiltekna hluti á þeim tíma sem sú umræða fer fram og við þær aðstæður sem þá eru uppi og það að koma mörgum árum seinna og ætla að taka menn upp í slíkum liðnum atburðum er að ræða stjórnmál í þáskildagatíð: Ef þetta, ef hitt. Það þjónar ekki miklum praktískum tilgangi held ég nema a.m.k. sú umræða sé sett í svona sanngjarnt hlutskipti.
    Ég verð hins vegar að segja alveg eins og er og það skal viðurkennast að sú rétttrúnaðarhugsun, sem að hefur nokkru leyti komið fram í máli hv. þm. og reyndar fleiri æstustu aðdáenda Evrópusambandsins eins og samningagerðarinnar um EES, fer í taugarnar á mér. Þessi tilraun til þess að koma og sanna mörgum árum seinna: ,,Við höfðum rétt fyrir okkur, hinir rangt`` í einhvers konar kaþólskum rétttrúnaðarhugsunarstíl. Þetta fer í taugarnar á mér vegna þess að þetta er ekki svona. Staðreyndin er sú að það féllu stór orð í hita leiksins á bága bóga og menn sögðu kannski meira en síðar hefur komið á daginn. Það á ekkert síður við um hæstv. fyrrv. utanrrh. Talandi um að þetta mál snúist um að bera virðingu fyrir staðreyndum og hverjir hafi haft rétt fyrir sér og hverjir rangt, ætli það sé ekki þannig að það liggi ýmis miður góð mál í farteski hæstv. fyrrv. utanrrh. svo sem eins og með langhala sem breyttist í karfa og milljarða og bækling sem utanrrn. gaf út og fullyrti að við Íslendingar þyrftum ekki þrátt fyrir samningagerðina við EES að breyta í nokkru okkar tilhögun varðandi sölu á áfengi. Hvað er nú að koma á daginn? Ætli það sé ekki þannig að virðing fyrir staðreyndum þurfi þá líka að meðhöndlast á báða bóga og jafnvel svo að menn þurfi að átta sig vandlega á því hvaða hús þeir byggja, hvort sem það er með þykkjum veggjum úr steini eða gleri.