Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

7. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 16:12:44 (279)


[16:12]
     Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er fjarri mér að vilja eyða löngum tíma þingsins um einskis vert karp en ég verð að segja að þegar hv. þm. segir: ,,við skulum ekki ræða um fortíðina, við skulum ekki ræða um það sem stjórnmálamenn sögðu, það hefur sitthvað verið missagt o.s.frv.``, þá efast ég um að hann sé á réttum brautum. Tökum dæmi.
    Forustumenn í flokki hans hafa sagt í tilefni af því hvernig til núv. hæstv. ríkisstjórnar var stofnað um formann Framsfl. að hann hafi brugðist trúnaði að því er varðar samskiptin við stjórnarandstöðuflokkana. Þeir hafa með öðrum orðum vitnað í yfirlýsingar formanns Framsfl. þar sem hann sagði að hann mundi að loknum kosningum fyrst ræða við fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna sem hann gerði að vísu og leitaði umboðs þeirra. Og ræddi síðan við formann Alþfl. Hann hefur staðfest að rétt hafi verið með farið þegar ég skýrði frá niðurstöðum þeirra viðræðna. En forustumenn Alþb. og forustumenn Kvennalistans hafa sagt: Þeim boðum var aldrei komið til okkar. Ég tek þetta dæmi vegna þess að þetta varðar spurninguna um trúnað við kjósendur. Hvað sögðu menn fyrir kosningar um hvað fyrir þeim vakti og hvernig breyttu menn síðan eftir kosningar? Nú gæti hv. þm. sagt: Það er ekkert mark takandi á þessu, við skulum ekki ræða um þetta vegna þess að þetta tilheyrir fortíðinni. Ég er einfaldlega að segja almennt um stjórnmálaumræðuna að ef það er svo að menn skipta um skoðun á stærstu málum þjóðfélagsins frá því að þeir eru í stjórnarandstöðu og þangað til þeir fara í stjórn, bara hlutverkaskipti, þá er verið að grafa undan því sem t.d. Framsfl. gerði að meginmáli í kosningabaráttu sinni, spurninguna um vinnubrögð, spurninguna um trúnað og spurninguna um traust. Einstök dæmi um það sem hv. þm. segir: Það var sitthvað ofsagt á báða bóga. Mál fyrir mál er ég reiðubúinn til að standa í umræðum við hann út af því hvort heldur þegar hann nefnir langhala eða þegar hann nefnir mat Þjóðhagsstofnunar eða annarra á efnahagslegum áhrifum samningsins. Sem og fullyrðingar sem ég nefndi nokkrar og vitnaði í ræðu hæstv. félmrh. sem augljóslega voru einfaldlega efnislega rangar, voru bara hræðsluáróður, sem ekkert á mark var á takandi.