Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

7. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 16:30:00 (282)

[16:30]
     Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar) :
    Herra forseti. Af því að hæstv. ráðherra vitnaði í spjall við þann sem hér stendur í útvarpi í gær má ég til með að leiðrétta það sem hann lagði mér í munn. Ég sagði aldrei að Alþingi Íslendinga væri að mínu mati ómerkileg stofnun, það sagði ég að sjálfsögðu ekki. Ég sagði hins vegar að oft hefði mér leiðst á þingbekkjum. Það er ekki nýtt úr mínum munni vegna þess að ég hef stundum orðið til þess að gagnrýna nokkuð hér vinnubrögð. T.d. er hér hæstv. ráðherra að flytja mál sem hann lýsir sig andvígan. Umræða hans um málið er svo sem engin efnisleg utan það. Og síðan kemur hann upp í ræðustól öðru sinni og talar þá út og suður um daginn og veginn, allt og ekkert, sem málinu kemur ekkert við. Þetta er dálítið fátítt í þjóðþingum og ber vott um agaleysi og mun ekki stuðla að virðingu þingsins.
    Efnislega sagði hæstv. ráðherra.: Ég er enn þá á móti EES-samningnum. Ég sé ekkert eftir ummælum mínum og fullyrðingum sem flestar voru staðleysustafir. Ég er bara ánægður með þetta, þetta var nokkuð vel orðað hjá mér. Hann virðist ekki draga neina ályktun af þessu.
    Er svo að skilja að baráttumaður gegn dvöl ameríska hersins á Íslandi sem sest síðan í ríkisstjórn og gerist varnarmálaráðherra og fer að flytja tillögur um að festa varnarliðið í sessi geti síðan komið gasprandi upp í ræðustól og sagt: Ég er enn þá á móti hernum. Já, já, mikil ósköp. Geta menn sagt við kjósendur: Ég er algerlega á móti þessu máli, varað kjósendur við með hinum stærstu orðum: Floti Efnahagsbandalagsins uppi í fjöru, brot á stjórnarskránni, framsal á löggjafarvaldi, framsal á framkvæmdarvaldi, atvinnuleysi, ég veit ekki hvað og hvað, sest síðan í þennan stól sem einn af forustumönnum síns flokks og flutt þessi mál og sagt: Ég ætla nú að flytja þessi mál engu að síður. Ég hef að vísu sagt þetta

og ég dreg það ekki til baka.
    Ef einhver hv. þm. getur farið þessa hringi og varið það fyrir sjálfum sér að hér sé maður að tala af einhverri pólitískri sannfæringu eða pólitískri þekkingu og ætlast til að menn taki mark á honum, hvers konar galskapur er þetta þá orðið?