Aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði

8. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 17:19:05 (295)


[17:19]
     Lúðvík Bergvinsson :
    Herra forseti. Ekki er ástæða til að rekja frekar þær forsendur sem liggja að baki því að þetta frv. er komið hér fram. En þær athugasemdir sem ég hef við frv. lúta ekki að þeim atriðum sem í frv. er að finna heldur að hinu sem þar er ekki að finna og breytir brtt. allshn. engu þar um.
    Í fyrsta lagi er dómarafulltrúum eftir sem áður ætlað að kveða upp gæsluvarðhaldsúrskurði. Slíkir úrskurðir lúta að grundvallarmannréttindum, þ.e. frelsi manna. Því segi ég að ef fulltrúum er ekki treystandi til þess að dæma um ágreining í einkamálum er varla eðlilegt að lögfræðingur sem verið er að þjálfa upp í dómaraverkum kveði upp úr um hvort einstaklingar skuli sviptir frelsi eða ekki. Þetta er vægast sagt undarleg forgangsröðun.
    Einnig er merkileg staða fyrir sakborning að hann þurfi að sæta því að lögfræðingur í starfsþjálfun eins og fram kemur í greinargerð með aðskilnaðarlögunum sem tóku gildi 1992 úrskurði hvort hann skuli sviptur frelsi eður ei. Það er varla í anda mannréttindasáttmálans.
    Í öðru lagi er ekkert að finna í frv. um kjör dómarafulltrúa sem ráðherra skipar til starfa. Fulltrúar þurfa því áfram að sækja laun sín á hendur ríkisvaldinu í kjarasamningum með tilheyrandi verkfallsbrölti. Spurningin er því áfram: Eru þeir nægilega óháðir framkvæmdarvaldinu?
    Á það má benda í þessu sambandi að ríkið er oft aðili að dómsmálum. Er til að mynda réttur skiptaþola í þeim tilvikum sem ríkissjóður er skiptabeiðandi nægilega tryggður til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli þegar svo stendur á að sá sem fer með dómsvald í málinu á það undir fjmrh. hvort hann fær útborgað um næstu mánaðamót eða ekki vegna yfirvofandi verkfalls?
    Svarið liggur ekki á lausu en ég tel óeðlilegt að löggjafinn skilji þannig við þetta mál að hann þurfi að taka áhættuna af því að svars við þessari spurningu verði leitað fyrir dómstólum. Því spyr ég hvort ekki væri eðlilegra að bæta því inn í frv. að laun skipaðra fulltrúa skuli ákveðin af Kjaradómi. Í þessu sambandi er einnig vert að benda á að í frv. er ekki kveðið á um hvernig fara skuli með stöðu þeirra fulltrúa sem nú sitja, þ.e. hvort þeir skuli skipaðir til starfans eða hvort stöður þeirra skuli auglýstar upp á nýtt.
    Í grg. með frv. kemur fram að nauðsynlegt sé að vinna tíma til að leggja fram frv. um framtíðarskipan dómstóla. Það er nú allt gott og blessað. En ég tel þó eðlilegra til þess að vinna tíma meðan unnið er að frv. um framtíðarskipan dómstóla að í stað þess að reyna að stoppa upp í götótt fulltrúakerfi sem dómurinn staðfesti að sé gengið sér til húðar og því þurfi að þjálfa lögfræðinga til dómaraverka með öðrum hætti, að ákveða með lögum nægilega margar tímabundnar dómarastöður eða heimila dómsmrh. að skipa nægilega marga dómara tímabundið svo koma megi í veg fyrir ófremdarástand. Slíkt fyrirkomulag mundi án efa girða fyrir hættu á að leikurinn frá 18. maí sl. endurtaki sig með tilheyrandi ómerkingum fjölda héraðsdóma vegna þess að ekki hafi verið bætt nægilega úr ástandi sem samræmist ekki stjórnarskrá og mannréttindasáttmála. Það yrði löggjafanum ekki til framdráttar ef úrbætur hans yrðu léttvægar fundnar þegar á þær reyndi.
    Þó að hugmyndir mínar sem reifaðar hafa verið hér að framan leiði ekki til jafnánægjulegrar niðurstöðu fyrir fjmrn. og sú kostnaðarumsögn sem fylgir því frv. sem hér er til umræðu og ber með sér að verði þetta frv. að lögum muni það ekki hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð, þá á það ekki að vera markmið í sjálfu sér að reglur sem settar eru um dómsvaldið sem er einn þáttur ríkisvaldsins kosti samfélagið ekki neitt. Það er ekki við hæfi að tala um lýðræði og þrískiptingu valds á hátíðarstundum ef vilji fjárveitingavaldsins stendur ekki til þess að greiða þau útgjöld sem óhjákvæmilega hljótast af stjórnskipun Íslands.