Aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði

8. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 17:23:42 (296)


[17:23]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Til umræðu er frv. til laga um breytingu á lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92 frá 1. júlí 1992.
    Hér er um mjög athyglisvert mál að ræða. Annars vegar vegna þess að Hæstiréttur hefur úrskurðað að staða dómarafulltrúa uppfylli ekki grunnreglur stjórnarskrár um sjálfstæði dómsvaldsins og því er lögð til breyting á stöðu dómarafulltrúa til að setja undir þann leka. Hins vegar er lagt til í leiðinni af allshn. að breyta starfssviði dómarafulltrúa sem vissulega sætir gagnrýni viðkomandi starfsmanna og það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að í raun kemur sú breyting ekkert hæstaréttardómnum við. Ég er sammála henni í því.

    Málin hafa þróast þannig á undanförnum árum að dómarafulltrúar dæma í öllum málum þó að þeir þurfi ekki að fullnægja öllum kröfum um dómarahæfi. Í máli dómarafulltrúa, sem komu á fund allshn., kom í ljós að mikill meiri hluti þeirra 13 dómarafulltrúa sem starfa nú í landinu hafa full dómararéttindi og vilji þeirra er sá eðlilega að dómaraembættum fjölgi þar sem þeir vinna sömu störf og dómarar en á mun verri kjörum. Það skal tekið fram að margir dómarafulltrúar hafa 8--9 ára starfsreynslu.
    Það getur varla talist eðlilegt að í landinu starfi tvær gerðir dómara þar sem önnur er lægra sett en hin. Til að leysa það mál eru tvær leiðir mögulegar að mínu mati. Í fyrsta lagi að breyta störfum þeirra dómarafulltrúa sem hafa dómarahæfi í starf dómara og í öðru lagi að takmarka þau störf sem dómarafulltrúar sinna sem fullnægja ekki dómarahæfi.
    Hér er eingöngu lagt til að takmarka störf dómarafulltrúa en ekki að breyta starfsheiti þeirra dómarafulltrúa sem hafa dómarahæfi sem ég hefði talið æskilegra. Undirrituð, sem á sæti í allshn., ákvað þó samt sem áður að vera með á áliti nefndarinnar í ljósi þess að um er að ræða brýnt mál fyrir dómskerfið og ákvæðið á eingöngu að vera í gildi til 1. október 1996 en þá er gert ráð fyrir að fyrir liggi frv. til dómstólalaga og þá verða þessi mál endurskoðuð í heild sinni.